Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,07% í marsmánuði og náði hún nú 439,9 stigum meðan hún lækkaði ef húsnæði er tekið út úr henni, þá um 0,28% frá því í febrúar.

Náði vísitalan án húsnæðis þá 389,2 stigum, en mælikvarði Hagstofunnar sem tekur hana saman miðar við að hún hafi verið í 100 stigum í maí 1988. Síðustu tólf mánuðina hækkaði heildarvísitalan um 1,6% en án húsnæðis hefur hún lækkað um 1,7%.

Þeir liðir sem hækkuðu milli mánaða eru meðal annars kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, svokölluð reiknuð húsaleiga, sem hækkaði um 1,7% sem og verð á fötum og skóm sem hækkaði um 7,9%.

Hins vegar lækkaði verð á ferðum og flutningi um 1,7%, verð á mat og drykkjarvörum lækkaði um 0,9% og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um 2,7%.