Í aðdraganda þjóðhátíðardags Bandaríkjanna, sem haldinn er hátíðlegur á morgun, 4. júlí, er verð á hamborgurum í Bandaríkjunum nú í lágmarki, en stór hluti þjóðarinnar heldur upp á daginn með grillveislum og veisluhöldum. Munu Bandaríkjamenn og velunnarar fagna því á morgun að 241 ár eru síðan Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði frá bresku krúnunni og því frelsi og lýðræði sem Bandaríkjamenn telja landið standa fyrir.

Bendir Bloomberg fréttastofan á að þökk sé mikilli framboðsaukningu sé nautakjöt nú orðið samkeppnishæft við svína- og fuglakjöt, en dagurinn er vinsælasti grilldagurinn í landinu, og búast um 87% landsmanna við því að grilla að því tilefni. Nautakjöt er hins vegar langvinsælasta kjötið á boðstólum á 4. júlí, og eyddu kanar 803 milljónum dala, eða sem nemur rúmlega 84,4 milljörðum króna, síðustu tvær vikurnar fyrir 4. júlí í fyrra.

Nautakjötsframleiðslan heldur áfram að aukast

Nautakjötframleiðsla hefur aukist annað árið í röð, og er það nú í sögulegu hámarki, sem og fuglakjötsframleiðsla. Á sama tíma hefur verðið ekki verið ódýrara síðan árið 2014. Vogunarsjóðir vænta þess að nautakjötsverð haldist áfram lágt, og hafa framvirkir samningar um nautakjöt ekki gert ráð fyrir lægra verði í 11 vikur.

Á markaðnum í Chicago lækkuðu framvirku samningarnir um 4,4% í júní niður í 1.163 dali hvert pund af kjöti. er það þriðja lækkunin á fjórum mánuðum með samningana sem mest viðskipti eru með. Á sama tíma er búist við að nautakjötsframleiðslan muni hækka um 4% á árinu upp í 26.292 milljón pund á þessu ári að því er landbúnaðarráðuneytið í Bandaríkjunum gerir ráð fyrir.