Stefnt er að því að reisa fjórar kísilverksmiðjur hér á landi á næstu þremur árum. Samanlagður kostnaður við framkvæmdirnar nemur 207 milljörðum og þegar þær verða komnar í rekstur munu þær skapa tæplega 800 störf. Framkvæmdir við tvær af þessum verksmiðjum eru þegar hafnar en það er kísilmálmverksmiðjur United Silicon í Helguvík og PCC á Bakka við Húsavík. Þegar er því alveg ljóst að þessar verksmiðjur munu rísa enda búið  að aflétta öllum fyrirvörum vegna raforkusamninganna sem gerðir voru við Landsvirkjun. Þar með eru fyrirtækin tvö skuldbundin til að kaupa raforkuna sem samið var um.

Vegna sviptinga á mörkuðum hafa vaknað spurningar hvort kísilmálmverksmiðja Thorsil í Helguvík og sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga verði að veruleika. Bæði kísilmálmur og sólarkísill hafa lækkað mikið í verði undarnfarna sex til átta mánuði. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þrátt fyrir þetta stefni forsvarmenn Thorsil enn að því að byggja verksmiðjuna í Helguvík. Forsvarsmenn Silicor Materials hyggjast einnig halda ótrauðir áfram.

Lækkun í Evrópu og Kína

Fyrirtækið CRU (Commodities Research Unit) gefur vikulega út skýrslur um verð á kísilmálmi. Til þess að nálgast þær upplýsingar þarf að vera áskrifandi hjá fyrirtækinu og það er dýrt — kostar milljónir króna á ári. Til að flækja málið aðeins þá er kísill flokkaður í marga flokka eftir hreinleika. Elkem framleiðir til að mynda kísiljárn, sem er allt að 75% hreinn kísill.

Kísilmálmurinn, sem United Silicon, PCC og Thorsil hyggjast framleiða, er aftur á móti að minnsta kosti 98,5% hreinn kísill og er auðkenndur sem Silicon Metal  4-4-1 Si eða 5-5-3 Si. Sólarkíslinn er síðan 99,9999% hreinn kísill. Heimsmarkaður með kísilmálm er um 2,4 milljónir tonna á ári.

Í byrjun síðasta sumars kostaði tonnið af kísilmálmi (4-4-1 ) 2.460 evrur en er nú komið í 1.910 evrur. Þetta er  Lækkunin nemur því 22%. Verðið í Evrópu er með flutningskostnaði (e. DDP eða Delivered Duty Paid).

Stærsti markaður með kísilmálm er í Kína. Þar er verðið gefið upp í dollurum og án flutningskostnaðar (e. FOB eða Free On Board). Í fyrra fór verðið hæst í 2.203 dollara tonnið en stendur nú í 1.560, sem jafngildir 29% lækkun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .