Matfugl ehf. hefur ákveðið 5% lækkun heildsöluverðs á heilum kjúklingum og kjúklingabringjum sem fyrirtækið framleiðir undir vörumerkjunum Ali, Móar og Ferskur kjúklingur. Verðlækkunin tekur gildi á mánudaginn.

Forráðamenn fyrirtækisins segja í yfirlýsingu að ástæðan sé annars vegar gengisstyrking íslenskrar krónu en hins vegar vilji þeir stuðla að því í verki að náð verði markmiðum nýgerðra kjarasamninga um efnahagslegan stöðugleika og aukinn kaupmátt.

„Í loftinu liggur lækkun fóðurverðs vegna styrkingar krónunnar undanfarnar vikur. Kjarasamningarnir fyrir jólin auka hins vegar vissulega launakostnað í fyrirtækinu en þegar á heildina er litið finnst okkur öllu máli skipta að styðja skynsamleg markmið samninganna um efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu. Þess vegna ákváðum við að standa við að lækka verð á kjúklingaafurðum sem við seljum undir eigin vörumerkjum. Við viljum koma þessu á framfæri nú, ekki síst í ljósi frétta um verðhækkanir hér og þar á matvælamarkaði,“ segir Sveinn V. Jónsson, framkvæmdastjóri Matfugls ehf.