*

mánudagur, 28. maí 2018
Erlent 4. janúar 2017 12:19

Verð Next hríðfellur

Fatakeðjan Next lækkaði á mörkuðum í Bretlandi í dag í kjölfar tilkynningar um minnkandi sölu í jólavertíðinni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hlutabréf í fataverslunarkeðjunni Next, sem meðal annars er með verslanir hér á landi, féllu um 9% í morgun á mörkuðum Lundúnaborgar.

Kom lækkunin í kjölfar þess að fyrirtækið tilkynnti um minnkandi sölu, en á þeim 54 dögum sem voru í aðdraganda jóla minnkaði salan um 0,4%. 

Tæplega 111 milljarða króna hagnaður

Nú væntir fyrirtækið að hagnaður ársins verði 792 milljón punda, eða tæplega 111 milljarðar króna, en fyrir fram hafði fyrirtækið vænt þess að hagnaðurinn yrði á bilinu 785 til 825 milljónir. 

Next sagði að salan árið 2017 gæti orðið fyrir áhrifum ef aukin verðbólga dragi úr hagnaði og neyslu almennings. Hlutabréf félagsins lækkuðu um 4,35 pund niður í 43,35 pund í morgun. 

Fyrirtækið sagði að fatakostnaður mætti ekki hækka um meira en 5% í kjölfar lækkunar pundsins á síðasta ári, því það myndi draga úr sölu um 0,5%.

Í síðustu viku birtust tölur frá samtökum smásölufyrirtækja sem sýndu að farið væri að bera á verðhækkunum. Fata- og skóverð hefði hækkað í desember í samanburði við nóvember, sem er fyrsta verðhækkunin milli mánaða í næstum tvö ár.

Stikkorð: Bretland fataverslun Next pund