Með 0,14% hækkun vísitölu neysluverðs í septembermánuði sem Viðskiptablaðið sagði frá í morgun, lækkar ársverðbólga síðustu 12 mánuði úr 1,7% niður í 1,4%.

Þetta er lægri verðbólga en greiningaraðilar höfðu spáð, en þeir höfðu spáð á bilinu 0,25% til 0,5% verðbólgu í mánuðinum. Greining Arion banka fjallar um ástæðuna en spá þeirra hafði verið við lægri mörk spábilsins og þar af leiðandi að ársverðbólgan yrði 1,5%.

Segja þeir að hressileg lækkun flugfargjalda til útlanda auk verðlækkunar á mat á drykkjarvörum hafi vegið meira á móti hækkun húsnæðisverðs og útsöluloka. Þannig lækkuðu flugfargjöldin líkt og yfirleitt gerist á þessum árstíma, en lækkunin nam 18,8%, en gisting lækkaði um 2,84% meðan verðlag á veitingastöðum hækkaði um 0,18% milli mánaða.

Lækkun á mat og drykk kom á óvart

Lækkun á mat og drykk kom þó greinendum Arion banka meira á óvart, en lækkunin kom á sama tíma og krónan veiktist nokkuð. Verðið hefur farið lækkandi síðustu mánuði, en hækkaði að nýju í ágúst í kjölfar lækkunar krónunnar og gerðu þeir ekki ráð fyrir aukinni lækkun á ný í september.

Þyngst vó lækkun á grænmeti eða 2,27% og gosdrykkjum, safti og vatni, eða 2,21%, en á sama tíma hækkaði verð á skóm og fötum meira en ráð var fyrir gert.

Húsnæðisliðurinn virtist hafa kólnað í síðasta mánuði með einungis 0,43% hækkun milli mánaða, en í september nálega tvöfaldaðist hækkunin og nam hún 0,81%. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,21% en árstakturinn lækkaði hins vegar úr 22,9% niður í 20,4%. Drógu hækkanir á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu, sem námu 3,81% milli mánaða, og hækkun um 1,37% utan höfuðborgarsvæðisins sem drifu verðbólguna áfram.

Hins vegar hækkaði verð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu einungis um 0,23% á milli mánaða, en í síðasta mánuði hafði verðið hækkað um 0,32%. Telur greiningardeildin líklegt að húsnæðisliðurinn haldi áfram að gefa eftir.