Sigurður Sævar Magnúsarson er ungur listamaður sem stofnaði nýlega sitt fyrsta einkahlutafélag. Fyrirtæki Sigurðar heitir Listamaður ehf. og er því ætlað að halda utan um listaverkasölu og rekstur hans sjálfs sem listamanns. Þess að auki mun fyrirtækið höndla kaup og sölu Sigurðar á listaverkum annarra listamanna. Fyrirtækið er fyrsta félag Sigurðar.

„Ég hef verið að selja ágætlega. Síðustu mánuði hefur verið gífurleg sala hjá mér,” segir Sigurður. Fyrirtækið stofnaði hann vegna þess að það er honum hagkvæmara að halda utan um rekstur listavið- skipta sinna gegnum einkahlutafélag. Eins og segir um fyrirtækið Listamaður ehf. mun það koma til með að sjá um viðskipti með listaverk annars listafólks. Sigurður fjárfestir í málverkum eftir aðra listamenn.

„Það er gaman að kaupa fallega myndlist. Ég er sjálfur að fjárfesta í myndlist og þetta er spennandi markaður,” segir Sigurður Sævar. Sigurður er átján ára gamall. Hann hefur verið hugfanginn af myndlist frá því að hann var sjö ára gamall og fór á sýningu Ólafs Elíassonar.

„Það var sýningin Frostvirkni, sem sýnd var í Hafnarhúsinu árið 2004. Ég gjörsamlega heillaðist af þessari sýningu. Þannig kviknaði áhugi minn á myndlist. Eftir að ég kom heim af sýningunni byrjaði ég að móta skúlptúra úr kennaratyggjói og tannstönglum,” segir Sigurður.

„Þegar ég var tíu ára fékk ég í afmælisgjöf málningu, pensil og striga frá systur minni. Daginn eftir málaði ég mynd, eftir að hafa tekið ákvörðun um það að gerast myndlistarmaður í framtíðinni. Það var þá þann 16. september árið 2007 sem ég tók ákvörðun um að gerast myndlistarmaður. Ég hef ekki hætt síðan.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.