Fjárfestingarfyrirtæki Warren Buffett, Berkshire Hathaway, mun skipta forgangshlutabréfum (e. preferred stock) sínum í Bank of America út fyrir venjulegt hlutafé. Munu skiptin gera Berkshire að stærsta eiganda bankans. Fyrirtækið greindi frá því í dag að það myndi nýta kauprétt sinn að 700 milljónum hluta í bankanum. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Berkshire keypti forgangshlutabréf í Bank of America fyrir 5 milljarða dollara árið 2011. Hafa bréfin skilað Berkshire 6% arðgreiðslum árlega síðan þá eða um 300 milljónum dollara á hverju ári. Með kaupunum fékk fyrirtækið einnig kauprétt að 700 milljón hlutum fyrir 7,14 dollara á hlut. Við lokun markaða stóð gengi hlutabréfa Bank of America í 24,32 dollurum á hlut. Fjárfesting Buffet og samstarfsmanna hans hefur því hækkað um 12 milljarða dollara í verði. Auk þess mun félagið fá um 336 milljónir dollara í arðgreiðslur miðað við núverandi arðgreiðslustefnu bankans.

Berkshire sem situr á um 100 milljörðum dollara af lausafé hefur verið töluvert í fréttum undan farið. Fyrir viku síðan var greint frá því að fyrirtækið hafi gerst lánveitandi til þrautavara fyrir kanadíska húsnæðislánafyrirtækið Home Capital Group auk þess sem Berkshire varð stærsti hluthafinn með 38,4% hlut. Þá greindi Berkshire frá því á mánudaginn að fyrirtækið hefði fest kaup á 9,8% í bandaríska fasteignafélaginu Store Capital Corp fyrir 377 milljónir dollara.