*

fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Erlent 18. júlí 2017 13:03

Verðbólga dregst saman í Bretlandi

Verðbólga dróst saman í Bretlandi í fyrsta sinn síðan í október 2016.

Ritstjórn

Verðbólga í Bretlandi  mældist 2,6% í júnímánuði og dróst saman um 0,3 prósentustig frá mánuðinum á undan. Samkvæmt frétt BBC er ástæða lækkunarinnar rakin til lægra olíuverðs. Er þetta í fyrsta sinn síðan í október árið 2016 sem verðbólga dregst saman milli mánaða í landinu. 

Verðbólga í Bretlandi hefur hækkað töluvert síðan að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að gagna úr Evrópusambandinu. Við það féll pundið í verði sem hefur orðið til þess að verð á innfluttum vörum hefur hækkað. Eru verðbólgutölur júnímánaðar taldar draga úr þrýstingi á peningastefnunefnd Englandsbanka um að hækka stýrivexti.

Lucy O'Carroll, yfirhagfræðingur hjá Aberdeen Asset Management segir tölurnar hafa komið á óvart. Segir hún að til skamms tíma séu afar litlar líkur á að stýrivextir verði hækkaðir en þó muni koma í ljós á næstu vikum hvað bankinn hyggst fyrir.