*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 4. nóvember 2017 12:01

Verðbólga eða innantóm loforð

Stjórnmálaflokkarnir vilja lækka vexti, en loforð þeirra um stóraukin ríkisútgjöld munu auka verðbólgu og hækka vexti, ef marka má væntingar á skuldabréfamarkaði.

Snorri Páll Gunnarsson
Loforðaflaumur stjórnmálaflokkanna hljóðar upp á hátt í 100 milljarða króna í aukin útgjöld á hverju ári.
Haraldur Guðjónsson

Kosningar til Alþingis eru afstaðnar og hafnar eru þreifingar milli stjórnmálaflokkanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Forystumenn flokkanna reikna margir með erfiðum stjórnarmyndunarviðræðum, en átta flokkar fengu menn kjörna á þing og hafa fjórir flokksformenn gert tilkall til að fá umboð frá forseta Íslands til myndunar nýrrar ríkisstjórnar.

Á fjármálamörkuðum er það almennt þekkt að ríkisstjórnir sem eru til hægri á pólitíska litrófinu eru álitnar jákvæðari augum en þær sem hallast til vinstri. Ástæðan fyrir því felst ekki í pólitískri sannfæringu fjárfesta, heldur því að slíkar stjórnir eru líklegri til að vera með aðhaldssama ríkisfjármálastefnu, hóflegar skuldabréfaútgáfur, hagfellt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki og fjármagnseigendur, umfangsminna regluverk og frjálslynda utanríkisvið­ skiptastefnu.

Væntingar um hagstjórnina hafa þannig áhrif á verðmyndun á verðbréfamörkuðum til skamms tíma, svo sem þegar flokkar keppast við að yfirbjóða hver annan með kosningaloforðum eða í kjölfar kosninga eða stjórnarmyndunar. Fullt tilefni er því til að rýna í þær væntingar sem hafa komið fram á verðbréfamörkuðum varðandi hagstjórnina á komandi árum, nú þegar sjö vikur eru liðnar frá stjórnarslitum, kosningar eru afstaðnar og hafnar eru stjórnarmyndunarviðræður.

Nýtt met í ríkisútgjöldum?

Tilkynnt var um slit á mið-hægri stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar aðfaranótt föstudagsins 15. september. Ríkisstjórnin sem kenndi sig við „jafnvægi og framsýni“ og naut aðeins rúmlega 27% stuðnings meðal landsmanna sprakk vegna máls sem varðaði uppreist æru og trúnaðarbrest milli flokkanna. Titringurinn fannst vel á mörkuðum, enda hafði óvissan um framtíð­ina aukist til muna yfir nótt.

Á föstudeginum gufuðu þannig upp tugir milljarða króna á verðbréfamörkuðum. Úrvalsvísitalan (OMXI8) lækkaði um 2,9% og féllu hlutabréf nánast allra félaganna í Kauphöllinni í verði. „Slátrun“ var á skuldabréfamarkaði þar sem ávöxtunarkrafan í helstu flokkum óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði verulega, eða um 40-50 punkta, vegna væntinga um aukna verðbólgu og hærri vexti. Verðbólguálagið tók mikinn kipp (en hefur síðan farið lækkandi vegna styrkingar krónunnar), enda þegar óvissa ríkir um verðbólgu og vaxtastigið vilja fjárfestar fá umbun fyrir óvissuna. Á gjaldeyrismarkaði leitaði fjármagn að einhverju leyti úr landi, en krónan veiktist talsvert gagnvart helstu gjaldmiðlum viðskiptaríkja landsins.

Stjórnmálaflokkarnir hófu síð­an kosningabaráttu sína og fóru brátt að lofa stórauknum ríkis­útgjöldum, svo sem til heilbrigðismála, velferðarmála, menntamála og húsnæðismála. Líkt og svo oft áður áttu leiðtogar flokkanna erfitt með að útskýra hvernig útgjöldin yrðu fjármögnuð. Samtök atvinnulífsins bentu á að loforðastraumurinn myndi kosta ríkissjóð hátt í 100 milljarða í aukin útgjöld á hverju ári og að aðeins væri hægt að fjármagna þau með almennum skattahækkunum. Á loforðalistum flokkanna er einnig að finna breytingar á skattakerfinu (til dæmis skattalækkanir hjá Sjálfstæð­isflokknum en skattahækkanir hjá Vinstri grænum og Samfylkingunni), lækkun vaxta, róttækar breytingar á fjármálakerfinu og aðgerðir á fasteignamarkaði.

Í því óvissuástandi sem ríkt hefur frá stjórnarslitum hafa fjárfestar haldið að sér höndum. Þótt það sé vandkvæðum bundið að greina væntingar fjárfesta á verðbréfamörkuðum til stjórnarmyndunar og hagstjórnarinnar, meðal annars vegna smæðar markaðanna, birtingar hagtalna og ársfjórðungsuppgjöra, eru þó nokkrar vísbendingar til staðar.

Að segja eitt en gera annað

Snorri Jakobsson, hagfræði- og fjármálaráðgjafi hjá Capacent, segir að á skuldabréfamarkaði hafi sést merki um að kosningaloforð flokkanna gefi ekki tilefni til mikillar bjartsýni um verðbólgu­þróun næstu ára.

„Kosningaloforð um stóraukin ríkisútgjöld, breytingar á skattkerfinu og lækkun vaxta hafa ekki verið að leggjast sérstaklega vel í skuldabréfamarkaðinn, enda myndu þau þenja hagkerfið og auka verðbólguna,“ segir Snorri. „Verðbólguálagið hefur aukist og óverð­tryggðir vextir hafa hækkað. Það bendir til þess að áhættufælni fjárfesta á skuldabréfamarkaði hafi aukist og að þeir geri sér væntingar um aukna verðbólgu og hærri vexti næstu árin.“ Segir Snorri að annaðhvort muni verð­bólgan aukast vegna kosningaloforða flokkanna eða flokkarnir muni ekki ná að uppfylla loforðin sín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim