*

fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Erlent 3. ágúst 2017 14:30

Verðbólga ekki verið lægri frá 2009

Aukinn hagvöxtur í alþjóðahagkerfinu virðist ekki vera að leiða til hærri verðbólgu innan G-20 ríkjanna.

Ástgeir Ólafsson
Janet Yellen, Seðlabankastjóri Bandaríkjanna og Mario Draghi, forseti Seðlabanka Evrópu.
epa

Verðbólga innan G-20 ríkjanna, sem eru þau ríki sem standa fyrir 20 stærstu hagkerfum heims, mældist 2% í júnímánuði samkvæmt efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Er þetta lægsta stig verðbólgu meðal G-20 ríkjanna frá því í október árið 2009 þegar verðbólga á ársgrundvelli mældist 1,7% á tíma sem alþjóðahagkerfið var að byrja að rétta úr kútnum eftir alþjóðafjármálakreppuna.

Samkvæmt frétt Wall Street Jorunal þykir munurinn á stöðu alþjóðahagkerfisins nú og þá varpa ljósi á þau vandamál sem peningastefnunefndir seðlabanka heimsins standa frammi fyrir. Samkvæmt kenningum hagfræðinga ætti verðbólga að myndast vegna mismunar í eftirspurn eftir vörum og þjónustu og getu hagkerfa til að anna þeirri eftirspurn. Eftir því sem hagkerfið vex og eftirspurn eykst, ætti mismunurinn að minnka og verð ætti að hækka.

Nú er það hins vegar svo að þróunin virðist vera þveröfug. Innan G-20 ríkjanna jókst hagvöxtur síðustu þremur mánuðum síðasta árs og hélt áfram að aukast á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þrátt fyrir að hagvaxtatölur hafi ekki verið gerðar opinberar fyrir annan ársfjórðung í öllum ríkjum innan G-20 þá virðast tölur fyrir Bandaríkin, evrusvæðið og Kína benda til þess að hagvöxtur sé ekki að dragast saman. Á sama tíma hefur verðbólga náð lægsta stigi í tæp 8 ár. 

Samkvæmt greiningarfyrirtækinu Capital Economics er gert ráð fyrir því að hagvöxtur innan ríkjanna 20, verði 3,7% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 3,2% á þeim fyrsta og hagvöxtur sé því langt því frá að dragast saman. 

Er þetta því gjörólík staða en sú sem blasti við alþjóðahagkerfinu þegar verðbólga var síðast lægri en hún er nú. Árið 2009 hafði bilið milli eftirspurnar og framboðs aukist töluvert í kjölfarið á því að eftirspurn dróst verulega saman í kjölfar fjármálakrísunnar varð það til þess að seðlabankar heimsins hófu örvunaraðgerðir ekki eiga sér fordæmi í sögunni. Hefur þessi þróun valdið peningastefnunefndum heimsins miklum heilabrotum þar sem aukinn hagvöxtur virðist ekki leiða til aukinnar verðbólgu.

Eftir fund peningastefnunefndar evrópska seðlabankans í júní síðastliðnum, sagði Mario Draghi, forseti bankans að nefndin myndi taka það til skoðunar að draga úr og jafnvel vinda ofan magnbundinni íhlutun sinni. Bankinn kaupir nú skuldabréf fyrir 60 milljarða evra í hverjum mánuði. Eftir fund nefndarinnar í júlí, sagði Draghi hins vegar að kaupunum yrði haldið áfram þar sem verðbólguþrýstingur væri ekki nægjanlega mikill til að hægt væri að draga úr örvunaraðgerðunum.