Verðbólga á evrusvæðinu mældist 1,1% í desember og hefur ekki verið hærri í þrjú ár. Í nóvember mældist verðbólga á svæðinu 0,6%. Í september árið 2013 mældist verðbólga á evrusvæðinu síðast svo hátt. Þetta kemur fram í mælingum Eurostat .

Þetta þýðir að verðbólga er nú nær verðbólgumarkmiði evrópska seðlabankans sem er rétt um 2%. Marion Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, hefur sagt að bankinn nái verðbólgumarkmiði sínu á næsta ári eða því þarnæsta.

Verðbólgan hækkaði aðallega vegna hækkunar á olíuverði, sem hækkaði um 2,5% í desember á evrusvæðinu. Tengjast hækkanirnar samkomulagi OPEC ríkjanna sem reyna nú að draga úr olíuframleiðslu.