Verðbólga hefur ekki aukist meira á evrusvæðinu síðan árið 2013, en í janúar mánuði hækkaði neysluverðsvísitala svæðisins um 1,8%. Með þessu er verðbólgumarkmiðum evrópska seðlabankans um að vera rétt undir 2% loksins náð.

Þó hækkunin komi að mestu til vegna hækkandi olíuverðs hafa þessar tölur haft áhrif á umræðu um hvað sé rétt að örva hagkerfi svæðisins mikið, segir í frétt Bloomberg um málið.

Deilt um magnbundna íhlutun seðlabankans

Yfirmaður evrópska seðlabankans, Mario Draghi, hefur endurtekið lýst því yfir að undirliggjandi verðbólguþrýstingur sé veikur og hann vilji sjá hann sterkari, meðan þýskir stefnumörkunaraðilar eru farnir að ýta undir umræðu um að draga úr magnbundinni íhlutun á evrópskum fjármálamörkuðum.

Aukin bjartsýni virðist ríkja á evrusvæðinu og hefur hún ekki verið hærri í sex ár í janúar samkvæmt könnunum. Einnig sýna hagtölur að hagkerfið óx um 0,5% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Atvinnuleysi 10%, lægsta síðan árið 2009

Tölur Eurostat, hagstofu ESB, sýna að undirliggjandi verðbólga var 0,9% í janúar. Atvinnuleysi féll niður í 9,6% í desember, sem er það lægsta sem það hefur verið síðan um mitt ár 2009. Hagkerfið óx um 1,8% á síðasta ársfjórðingu síðasta árs miðað við sama tíma árið áður.

Verðbólgan í Þýskalandi jókst um 1,9% í byrjun ársins, sem er það mesta sem verið hefur í þrjú og hálft ár, meðan verðbólgan jókst um 3% á spáni, sem aukið hefur á gagnrýni á aðgerðir seðlabankans til að örva hagkerfið.

Vilja ýmsir meina að aukin óvissa í bæði stjórnmálum og hagkerfi heimsins í kjölfar úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu, einangrunarstefnu Trump forseta Bandaríkjanna í verslunarmálum og aukinn óstöðugleiki í stjórnmálum álfunnar hvetji til að varkárni sé gætt í að draga úr aðgerðum bankans.