*

fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Erlent 11. ágúst 2017 16:45

Verðbólga eykst lítillega í Bandaríkjunum

Verðbólga í Bandaríkjunum er enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Bandaríkjanna.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Verðbólga í júlímánuði í Bandaríkjunum mældist 1,7% og jókst um 0,1 prósentustig frá mánuðinum á undan samkvæmt gögnum frá vinnumálastofnun Bandaríkjanna. Var verðbólga 0,1 prósentustigi lægri en könnun Reuters meðal hagfræðinga hafði gert ráð fyrir.

Hærra verð á heilbrigðisþjónustu, húsnæði og matvælum varð til þess að verðbólga jókst lítillega í mánuðinum eftir að hafa staðið í stað í júní og lækkað um 0,1 prósentustig í maí. Verð á kjötvörum hækkaði um 1% auk þess sem verð á lyfseðilsskyldum lyfjum hækkaði um 1,3%.

Verðbólga í Bandaríkjunum er því enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka landsins um 2% verðbólgu á ársgrundvelli. Peningastefnunefnd bankans hefur hækkað stýrivexti tvisvar á þessu ári. Nefndin hefur einnig gefið það út að stefnt sé að því að hækka vexti í eitt skipti í viðbót á þessu ári.