Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga muni fara lítillega yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu á fjórða ársfjórðungi þessa árs og fyrsta ársfjórðungi 2018. Að örðu leyti mun verðbólga vera undir verðbólgumarkmiðinu á spátímabilinu 2017-2019. Spáin gerir ráð fyrir 2,1% verðbólgu á þessu ári en 1,9% verðbólgu á næstu tveimur árum. Þetta kemur fram í Þjóðhags- og verðbólguspá deildarinnar.

Í spánni segir að ein af lykilforsendan fyrir hagstæðri verðbólguspá sé forsendan um áframhaldandi styrkingu krónunnar á næstu árum og styðjist sú forsenda við væntingar um áframhaldandi afgang á vöru- og þjónustuviðskiptum.

6,7% hagvöxtur

Hagfræðideild Landsbankans spáir 6,7% hagvexti á þessu ári í kjölfarið á 7,2% hagvexti síðasta árs. Á næstu tveimur árum er þó gert ráð fyrir að nokkuð dragi úr vextinum en að hann verði þó góður í samanburði við helstu viðskiptalönd. Gerir spáin ráð fyrir að megindrifkraftar hagvaxtar á næstu árum verði útflutningur, einkaneysla og fjármunamyndun en þó verði útflutningur veigamesti þátturinn af þessum þremur.

Óvissuþættir gætu haft veruleg áhrif

Í spánni segir að umtalsverð óvissa sé um þróun efnahagsmála á næstu árum sem geti leitt til töluverðra frávika frá spánni. Vegna styrkingar íslensku krónunnar er óvissan um fjölgun ferðamanna á komandi árum mikill. Í spánni er gert ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna en hlutfallslega verði fjölgunin minni en síðustu ár. Ef forsendan um fjölgun ferðamanna bregst má búast við því að afleiðingarnar verði veikari króna sem myndi leiða af sér hærri verðbólgu.

Hvað varðar verðbólguþróun eru óvissuþættirnir gengisþróun krónunnar þar sem einungis eru nokkrir mánuðir síðan fjármagnshöftum á innlenda aðila var aflétt að fullu. Þá óvissa varðandi þróun á húsnæðisverði einnig nefndur sem óvissuþáttur en húsnæðisverð hefur verið og mun áfram verða ráðandi þáttur í verðbólguþróun á næstu misserum. Að auki er launaþróun talinn geta sett strik í reikninginn þar sem fjöldi kjarasamninga er nú þegar laus eða mun losna á þessu ári. Þá eru verðlagsáhrif vegna aukinnar samkeppni í smásölu vegna tilkomu erlendra smásöluverslana einnig nefnd til sögunnar sem óvissuþáttur.