Verðbólga mælist nú 1,0% hér á landi og hefur hún ekki verið minni frá síðasta fjórðungi ársins 1998, eins og bent er á í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Þegar húsnæðisliðurinn er skilinn frá hefur verðlag raunar lækkað um 0,3% undanfarna tólf mánuði, sem er mesta lækkun vísitölunnar á þann kvarða allt frá því í október árið 1967. Frá þeim tíma hefur tólf mánaða taktur vísitölu neysluverðs án húsnæðis aðeins tvisvar sinnum áður mælst með neikvæðum formerkjum. Það hefur aðeins einu sinni atvikast í tilviki vísitölunnar að húsnæði meðtöldu. Að því er segir í Morgunkorninu er ástæða þess er fyrst og fremst innflutt verðhjöðnun vegna styrkingar krónu, verðlækkunar á eldsneyti og öðrum hrávörum á heimsmarkaði og verðstöðnunar á innfluttum smásöluvarningi.

Verðbólguhorfur til skamms tíma eru að mati Greiningar góðar og segir í Morgunkorninu að raunar gæti verðbólga farið undir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í desember.

Samkvæmt nýbirtri nóvembermælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs lækkaði neysluverð um 0,5% frá mánuðinum á undan. Verðbólga mælist nú 1,0% eins og áður segir, en var 1,9% í október. Mælingin er langt undir opinberum spám, sem lágu á bilinu frá óbreyttri vísitölu til 0,2% lækkunar milli mánaða. Munurinn liggur að mestu í óvæntri lækkun íbúðaverðs og meiri verðlækkun á ýmsum innfluttum vörum en búist var við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .