Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,56% í mars frá fyrri mánuði og nemur verðbólgan nú því 2,8%, miðað við vísitöluna síðustu 12 mánuði. Hefur verðbólgan hækkað um 0,5 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 2,3%. Verðbólgan hefur ekki verið svona há síðan í janúar 2014 þegar hún náði 3,1%.

Er verðbólgan þar með komin yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Ef verðbólgan fer í meira en 1,5 prósentustiga frávik í sína hvora áttina þarf bankinn að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.

Hagstofan segir ástæðuna fyrir mikilli hækkun nú sé að vetrarútsölum sé lokið og verð á fötum og skóm hafi hækkað um 4,4% auk þess sem kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hafi hækkað um 1,4%. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,36% milli mánuði en vísitalan án húsnæðis síðustu tólf mánuði, hefur lækkað um 0,3%.