Sérfræðingar á markaði segja ástæðu þess að verðbólguálag hefur hækkað á mörkuðum síðustu tvær vikurnar vera óvissu vegna komandi kosninga.

Kosningaskjálfti hækkar verðbólguálag

„Meðal fjárfesta á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði fór kosningaskjálfti að gera vart við sig fyrir tveimur vikum eða svo,“ segir Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá fjármálafyrirtækinu Gamma í samtali við Morgunblaðið.

„Það lýsir sér meðal annars í því að verðbólguálag hefur verið að þokast upp á við á skuldabréfamarkaði.“

Óvissa veldur titringi

Jafnframt ræddi blaðið við forstjóra nokkurra stærstu fyrirtækja landsins sem allir voru sammála um að óvissa vegna væringja í stjórnmálunum væri að valda titringi í viðskiptalífinu.

Segir þar jafnframt að þar sem kannanir benda til stjórnarskipta, líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, megi gera ráð fyrir minna aðhaldi í ríkisfjármálum en verið hefur með nýrri stjórn, sé horft til kosningaloforða þeirra.

Því muni sá efnahagslegi slaki óhjákvæmilega leiða til aukinnar verðbólgu og þar með stýrivaxtahækkana Seðlabankans.