Hópur leikskólabarna heimsótti Seðlabankann nýlega, og fékk að heyra hryllingssögur úr fjármálaheiminum um verðbólgudrauginn.

Ógnarskepnan sem kölluð er verðbólgudraugurinn herjar á veski landsmanna þegar tækifæri gefst og étur upp peninga fólksins.

Enginn í hópi leikskólabarnanna var hrifinn af því að þetta fyrirbæri fengi að vaxa og dafna.

Því leit út fyrir að krakkarnir yrðu ákaflega fegnir að heyra að til er móteitur gegn þessum gamla fjanda.

Móteitrið er í formi vaxtahækkana Seðlabankans, sem hægt er að gefa inn í hæfilegum skömmtum til að tryggja betri velferð fyrir fólkið til framtíðar. Börnin önduðu léttar, vitandi að þau væru þá örugg fyrir forynjunni skaðlegu.