Í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans spáir bankinn því að verðbólgan hækki umtalsvert næstu mánuði, bæði vegna lækkunar á gengi krónunnar og vegna hressilegrar hækkunar á reiknaðri húsaleigu eins og þar segir.

Bendir bankinn á að verg neysluverðsvísitala hafi hækkað um 0,24% í september, sem er rétt undir spá bankans um 0,3% hækkun. Spá þeirra nú er 0,2 prósentustigum hærri en spá bankans frá því í september fyrir októbermánuð.

Breytingin skýrist annars vegar á því að bankinn hækkar spá sína um reiknaða húsaleigu út frá
gögnum í verðsjá fasteigna og að gengið hefur veikst nokkuð síðan í september.

Auk hækkunar á reiknaðri húsaleigu samkvæmt verðkönnun bankans á fasteignamarkaði hafa hvort tveggja ökutæki og matur og drykkur hækkað vegna lækkunar á gengi krónunnar.  Loks hefur hækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti skilað sér inn í verð á bensíni og díselolíu. Olíufatið af Brent hráolíu er nú komið yfir 80 Bandaríkjadali.

Verð á evru hefur hækkað um 2,1% og verð á Bandaríkjadal hefur hækkað um 3,0% milli
verðkannanavikna.

Loks gefur bankinn út bráðabirgðaspá til næstu þriggja mánuða:

  • Nóv: 0,2% milli mánaða, 3,2% ársverðbólga.
  • Des: +0,6% milli mánaða, 3,6% ársverðbólga.
  • Jan ‘19: -0,3% milli mánaða, 3,4% ársverðbólga.

Gangi spáin eftir verður verðbólgan komin rétt yfir 3,5% í lok árs. Það er 0,6 prósentustigum hærri verðbólga en við spáðum fyrir mánuði síðan.