Guðjón Auðunsson forstjóri Reita fasteignafélags segir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun fasteignaskatta úr 1,65% fyrir atvinnuhúsnæði niður í 1,60% strax á næsta ári, virðingarvert skref í rétta átt.

„Þetta hefði samt einungis verið hænuskref ef samþykkt því ef menn ætluðu að vera á sama stað og áður en Þjóðskrá breytti um aðferðafræði við útreikninga fasteignamatsins ætti skatturinn að vera um 1,1%. Sveitarfélög ættu ekki að gera ráð fyrir þessum tekjuauka,“ segir Guðjón sem segir að þó reka megi milljarða lækkun á virði eignasafns Reita til breytinganna taki Þjóðskrá ekkert tillit til þess í sínum útreikningum.

„Á fimm ára tímabili hafa fasteignagjöld hækkað úr því að vera um 11–12% af veltu okkar í að vera tæplega fimmtungur, þrátt fyrir að enginn hjá löggjafarvaldinu hafi samþykkt að hækka skatta með þessum hætti. Þetta er afleiðing af því að í stað þess að miða við kostnaðarmat eins og áður var, þar sem horft var á hvað það myndi kosta að byggja sambærilegar eignir upp á nýtt, eru eignirnar í dag metnar eftir svokallaðri tekjumatsaðferð, það er hverju líklegt er að eignirnar skili í tekjur.

Það er verðbólguhvetjandi enda þýðir það að lokum að aukin skattbyrði á fyrirtækin fer út í verðlag, sem þýðir að leigan mun hækka, en þegar Þjóðskrá metur á ný tekjubærni eignanna þá virðist hún hafa skilað meiri tekjum og því eru fasteignagjöldin hækkuð á ný. Það þarf að taka þennan spíral úr sambandi, ég kalla þetta hvalrekaskatt fyrir sveitarfélögin, það er eins og þau hafi unnið í lottói þann dag sem ákveðið var að breyta um aðferðafræði.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .