Seðlabanki Íslands framkvæmdi könnun dagana 30 janúar til 1 febrúar. Leitað var til 30 aðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða og annara verðbréfafyrirtækja og fengust svör frá 17 aðilum.

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að verðbólguvæntingar til eins árs hafi hækkað lítillega miðað við síðustu könnun bankans sem framkvæmd var í nóvember.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni eru væntingar um 1,9% verðbólgu á fyrri helmingi þessa árs en að hún aukist síðan lítillega og verði 2,3% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Þá vænta markaðsaðilar þess að verðbólga verði 2,8% eftir tvö ár og 2,7% að meðaltali næstu fimm og tíu ár sem er um 0,2 prósentum minni verðbólga en þeir væntu í síðustu könnun.

Könnunin gefur einnig til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði í 120 krónum eftir ár. Vænt gengi er því um 3% lægra en í síðustu könnun.