Dow Jones vísitalan í kauphöllinni í New York hefur fallið um 4% frá því að markaðir opnuðu þar ytra fyrir tæpum klukkutíma síðan. Þá hefur Nasdaq-vísitalan lækkað um 4,92% og S&P 500-vísitalan um 4,14%.

Gengi hlutabréfa á heimsmarkaði hefur lækkað gífurlega í viðskiptum dagsins í kjölfar mikillar lækkunar á Asíumarkaði í nótt, þar sem Shanghai-vísitalan féll um 8,49%. Sú lækkun hefur smitast um allt heimshagkerfið. Lækkun FTSE-vísitölunnar í Lundúnum nemur nú 5,65%, Dax-vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 6,08% og Cac-vísitalan í París um 7,2%.

Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur sömuleiðis mátt súpa seyðið af þessum miklu lækkunum, og hefur Úrvalsvísitalan í kauphöllinni lækkað um 3,19% það sem af er degi.

Gengi hlutabréfa í Marel hefur lækkað mest, eða um 4,95% í 529 milljóna króna veltu. Þá hefur gengi bréfa Eimskipa lækkað um 4,81%, Össurar um 4,26%. Mikil velta hefur verið með hlutabréf í Icelandair og nemur hún nú 1.218 milljónum króna. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 3,77%.

Þeir greiningaraðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við um lækkunina hér á landi eru sammála um að orsakir hennar megi rekja til slæmra tíðinda af efnahagsþróuninni í Kína .