Heimsmarkaðsverð á olíu hefur ekki verið lægra í ellefu ár eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag. Olíuverð á heimsmarkaði hefur lækkað um þriðjung frá því í lok ágúst. Á sama tíma hefur algengt útsöluverð á bensíni lækkað úr rúmlega 200 krónum í um 193 krónur .

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir fyrirtækið stýra verði á dælu eftir verði á heimsmarkaði. „Við reynum að fylgja því, og menn geta séð það. Þegar verð lækkar hratt þá minnkar hagnaður N1. Þó við eigum margra vikna birgðir, þá erum við að reyna að endurspegla verðið á markaðnum á hverjum tíma,“ segir Eggert Þór.

Kostuðu innkaupin ekkert væri verðið 130 krónur

Eggert bendir á að heimsmarkaðsverð á hráolíu sé ekki það sama og verð á unnum vörum, svo sem bensíni. Heimsmarkaðsverð á bensíni hækki iðulega á sumrin.

Sú spurning vaknar upp að hvaða marki neytendur geta vænst þess að lækkun heimsmarkaðsverðs endurspeglist í útsöluverði. Yfir helmingur af verði bensínlítrans fer beint í skatta, sem að uppistöðunni til eru krónutöluskattar. Eggert segist áætla að útsöluverð bensíns væri um 130 krónur á lítrann ef innkaupaverð á bensíni væri núll krónur.

Mun meiri skattar á bensín

Heimsmarkaðsverð á olíu til stórnotenda, svo sem í sjávarútvegi, hefur lækkað hratt að undanförnu. Verð svartolíu var 305 dollarar á tonnið í byrjun árs, en er nú í 155 dollurum á tonnið.

Eggert Þór segir útsöluverð svartolíu hafa þróast í takt við heimsmarkaðsverðið frá upphafi árs. Hann bendir á að mun minni skattar séu á svartolíu og flugvélaeldsneyti en á bensíni fyrir fólksbíla. Kolefnisgjald á svartolíu er rúmlega 7 krónur á lítrann. Engir slíkir skattar eru á flugvélaeldsneyti.