Aflaverðmæti Íslenskra skipa árið 2017 nam 110 milljörðum króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands . Árið 2016 var aflaverðmætið hins vegar 133 milljarðar, svo ljóst er að aflaverðmæti úr sjó hefur því minnkað um 23 milljarða eða sem nemur 17,3% samdrætti á milli ára.

Ef horft er eftir landshlutum var minnsti samdráttur aflaverðmætis á austurlandi, eða 5,9%, en mesti samdrátturinn á Norðurlandi vestra eða 40,3% á milli áranna 2016 og 2017. Samdrátturinn á höfuðborgarsvæðinu var 15,1%, sem var þriðja minnsti samdrátturinn.

Meira aflamagn en minni verðmæti

Aflamagn árið 2017 var 1.177 þúsund tonn, samanborið við 1.067 þúsund tonn árið 2016 sem er 10,2% aflaaukning milli ára. Aflaverðmæti í desember nam rúmum 7,4 milljörðum samanborið við 6,6 milljarða í desember fyrra árs.

Verðmæti botnfisks 2017 nam 76,2 milljörðum á árinu sem er samdráttur um 17,7% frá fyrra ári. Af botnfisktegundum var þorskur sem fyrr verðmætastur en aflaverðmæti þorsks á síðasta ári nam tæpum 48,7 milljörðum króna sem er 16% minna en árið 2016.

Verðmæti flatfiskafla var 7,5 milljarðar á síðasta ári sem er 17,3% samdráttur frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla nam 23,8 milljörðum sem er 14,6% minna en árið 2016. Aflaverðmæti loðnu jókst um 35,6% en verðmæti síldar og makríls dróst saman á milli ára. Verðmæti skel- og krabbadýra var rúmir 2,4 milljarðar á síðasta ári sem er 29,8% samdráttur frá árinu 2016.

Verðmæti afla, sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 60 milljörðum króna árið 2017 sem er samdráttur um 14,5%  frá fyrra ári. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam rúmum 16,4 milljörðum og dróst saman um 16,3%. Aflaverðmæti sjófrystingar dróst einnig saman á milli ára, nam rúmum 29 milljörðum samanborið við rúma 37 milljarða árið 2016.