Verðmat Landsbankans á olíufélaginu N1 hefur verið lækkað um 12%, eða úr 132,9 krónum á hlut í 116,7 krónur á hlut, en við lok viðskipta í gær stóðu bréfin í 107,50 krónum. Þegar þetta er skrifað hefur gengið lækkað í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur það nú í 105,00 krónum á hlut, svo mat Landsbankans er tæplega 9,5% yfir núverandi gengi.

Að mati hagfræðideildar bankans olli rekstur olíufélagsins vonbrigðum og voru tekjur félagsins og EBITDA talsvert undir væntingum markaðarins, þrátt fyrir mikinn vöxt í komum ferðamanna og aukna umferð á vegum landsins að því er Vísir greinir frá.

Lágt olíuverð ekki lengur afsökun

Sérfræðingar bankans segja jafnframt að skýring stjórnenda fyrirtækisins um lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og gengisstyrkingu krónunnar hafi þróast til betri vegar fyrir fyrirtækið á undanförnum vikum og því megi búast við ágætri afkomu á þriðja ársfjórðungi.

Gerir deildin ráð fyrir 4,4% tekjuvexti í ár, 4,5% vexti á næsta ári og 3,5% vexti árið 2019. Hins vegar muni rekstrarkostnaður hækka um 5,2% og hætta sé á launaskriði.

Ekki er gert ráð fyrir samlegðaráhrifum af fyrirhuguðum kaupum N1 á Festi sem Viðskiptablaðið hefur greint frá, en gróflega áætla þeir þó að kaupin geti sparað fyrirtækinu 573 milljónir króna. Því væri virði samlegðarinnar 3,8 milljarðar króna, eða sem nemur 12 krónur á hlut til viðbótar.