Fulltrúar Neytendastofu fóru til Vestmannaeyja í byrjun júlí og gerðu könnun á því hvort verðmerkingar hjá verslunum uppfylltu skilyrði laga og reglna. Stofnunin gerði athugasemdir við ýmsar verslanir, sem meðal annars lutu að því að verðmerkingar skorti í sýningarglugga auk þess sem sumar vörur voru óverðmerktar í matvöruverslunum. Þetta kemur fram á vefsíðu Neytendastofu.

Þá ber veitingastöðum skylda til að hafa matseðil við inngang til að mögulegir viðskiptavinir geti kynnt sér úrval og verð áður en gengið er til borðs.  Þá eiga magnupplýsingar drykkja að koma fram á matseðli og sé selt áfengi skulu vínmál vera löggilt. Eftir könnunina segir Neytendastofa ljóst að veitingastaðir í Vestmannaeyjum þurfi að bæta úr þessum atriðum til að geta veitt viðskiptavinum sínum þjónustu í samræmi við lög og reglur.

Að öðru leyti voru verðmerkingar í Vestmannaeyjum í ágætu horfi en Neytendastofa kveðst munu fylgja könnuninni eftir og ganga úr skugga um að úrbætur verði gerðar.