Meðalverð seldra íbúða í Reykjavík er byrjað að lækka að nýju eftir miklar hækkanir síðustu ára. Stóð verðið í stað í tveimur hverfum borgarinnar, en í tveimur lækkaði meðalfermetraverðið fyrir fjölbýli.

Á þetta við í fjölbýlishúsum, annars vegar í Vesturbæ Reykjavíkur og hins vegar í Seljahverfinu í Breiðholti, nánar tiltekið í póstnúmerum 107 og 109 að því er Morgunblaðið hefur upp úr gögnum Þjóðskrár. Fór kaupverðið í fjölbýli í Vesturbænum úr 496 þúsund krónur hver fermetri á öðrum ársfjórðungi ársins niður í 488 þúsund á þeim þriðja.

Í Seljahverfi lækkaði kaupverðið úr 374 þúsundum króna á fermetrann í fjölbýli niður í 349 þúsund á þessu sama tímabili. Á sama tíma stóð verðið nánast í stað í tveimur hverfum til viðbótar, það er í Hlíðunum og í Grafarvogi, en hækkaði þó í Miðborginni annars vegar og hins vegar í póstnúmeri 111 í Breiðholti.

Í síðastnefnda hverfinu fór meðalfermetraverðið úr 218 þúsund krónum á fyrsta ársfjórðungi ársins 2013 í 390 þúsund krónur á þriðja ársfjórðungi ársins í ár. Þetta gerir 78% verðhækkun á tæpum fjórum árum.