Á síðasta ári jókst svokallað verðtryggingarmisvægi stóru viðskiptabankanna þriggja um rúma 73 milljarða króna. Nam misvægið, sem mælir verðtryggðar eignir bankanna, á móti verðtryggðum skuldum þeirra 384 milljörðum króna. Mesta misvægið er hjá Landsbankanum, eða 207 milljarðar króna í lok síðasta árs, sem er um 82% af eiginfjárgrunni bankans að því er Vísir greinir frá.

Á árinu jókst misvægið um 38 milljarða, en alls hefur misvægi allra bankanna þriggja aukist mikið síðustu fimm árin. Fór það úr 160 milljörðum fyrir fimm árum upp í 384 milljarða í dag, sem nemur 139% hækkun, að því er Vísir greinir frá.

Eykur vaxtatekjur í hærri verðbólgu

Þessi skekkja þýðir að hreinar vaxtatekjur bankanna aukast um 3,8 milljarða króna í hvert sinn sem verðbólgan eykst um prósentustig. Á síðasta ári hækkaði vísitala neysluverðs um 2,1%, en hækkunin nam 2,0% árið áður.

Þetta þýðir að vaxtatekjur Landsbankans jukust um 2,1 milljarð króna á síðasta ári, en það sem af er ári hefur misvægið aukist um 24 milljarða á til viðbótar. Er það samkvæmt nýjasta árshlutareikningi nú orðið tæplega 232 milljarðar króna, sem er um 97% af eiginfjárgrunni bankans.

Sama hlutfall fyrir Íslandsbanka er um 34% af eiginfjárgrunni bankans, en verðtryggingarmisvægi hans jókst á síðast ári um rúma 14 milljarða og náði 60,9 milljörðum í lok ársins. Hlutfallið jókst einnig hjá Arion banka um 21 milljarð, og nam það 116 milljörðum í lok síðasta árs, sem er um 55% af eigin fé bankans.

Sérfræðihópur um afnám verðtryggingar lagði til í ársbyrjun 2014 að bönkunum yrði skylt að hafa jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda, og þannig yrði viðvarandi verðtrygginarmisvægi óheimilt. Var hugmyndin sú að draga þannig úr vægi verðtryggðra skulda heimilanna og skapa hvata fyrir bankanna að bjóða neytendum óverðtryggð íbúðalán í meira mæli.