Fyrir rétt rúmum 40 árum síðan, eða þann 15. mars 1979, lagði Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fram lagafrumvarp sem m.a. veitti heimild til verðtryggingar.

Á þeim tímapunkti var 40% verðbólga í landinu, en hæst átti hún eftir að fara í um 100% nokkrum árum síðar, áður en breyttar forsendur laganna knúðu fram aðgerðir. Rifjar Ásgeir Jónsson forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands þetta upp á facebook síðu sinni, og segir afmæli Ólafslaganna svokölluðu ekki hafa farið hátt.

„Sagt er að hann hafi sjálfur samið lögin við eldhúsborðið heima hjá sér á Aragötu – sem í þann tíma var kölluð prófessoragatan,“ segir Ásgeir sem segir frá því hvernig óðaverðbólgan gagnaðist áhrifamiklum hópum, t.a.m. stórfyrirtækjum og 68 kynslóðinni, meðan kynslóðin á undan tapaði ævisparnaði síðan.

„Óðaverðbólgan hófst eftir 1972 – þegar Bretton-Woods fastgengiskerfið hrundi sem var akkeri í íslenskrar hagstjórnar. Þá var landhelgin færð út og skuttogarar komu fram. Leiddi það til gríðarlegs vaxtar í sjávarútvegi. Upp úr þessu hófst víxlverkun launahækkana og gengisfellinga - samhliða agaleysi í hagstjórn.

Verðbólgan stóð í 40% þegar Ólafslög komu fram – og hækkaði eftir samþykkt þeirra til 1983 er hún sló í 100%. Vextir voru ákveðnir af stjórnmálamönnum og fylgdu ekki verðbólgu. Raunvextir voru því -20% nær allan áttunda áratuginn. Ávöxtun lífeyrissjóðanna var enn verri, eða allt að -40%.

Áhrifamiklir hópar högnuðust á neikvæðum raunvöxtum – s.s. helstu stórfyrirtæki landsins og hin fjölmenna ´68 kynslóð – hvers húsnæðis- og námslán brunnu upp. Á sama tíma tapaði önnur kynslóð ævisparnaði sínum - sem síðar olli (skammarlegri) fátækt eldra fólks.

Ólafslögin skiptu samt sköpun – því um leið og raunvextir hættu að vera neikvæðir hagnaðist enginn af hárri verðbólgu. Það breytti hinu pólitíska landslagi. Að lokum kallaði það stjórnvöld til raunverulegra aðgerða. Fyrsta skrefið var tekið árið 1983 þegar stjórnvöld lýstu yfir fastgengi og afnámu vísitölutengingu launa, en þá lækkaði verðbólgan niður í 20–30%.

Lokahnykkur var 1989 með festingu krónunnar við körfu gjaldmiðla – eða de facto þýska markið sem flestar evrópumyntir voru þá tengdar við. Og síðan Þjóðarsátt á vinnumarkaði 1990. Gekk þá verðbólgan niður á 2-3 árum. Er líklega leitun að öðrum jafn áhrifaríkum ritverkum íslenskum sem samin hafa verið við eldhúsborð en Ólafslög!

Færri vita þó þau að Óiafur hafði áður reynt að koma á verðtryggingu árið 1974 - þær tillögur sprengdu ríkisstjórnina þar sem Samtök frjálslyndra og vinstri manna lögðust gegn þeim.“