Hann var 36 ára þegar hann keypti stóran hlut í Húsasmiðjunni, árið 2002, sem hann seldi síðan í lok árs 2005 með miklum hagnaði.

Í dag rekur Árni fjárfestingarfyrirtækið Vogabakka ásamt Hallbirni Karlssyni. Fyrirtækið hefur í gegnum tíðina fjárfest í nokkrum af stærstu fyrirtækjum landsins, eins og VÍS, Högum og Símanum. Sjálfur segist hann þurfa að beita sér meira fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu.

Viðtal við Árna er eitt fjölmargra viðtala við áhrifafólk í íslensku atvinnulífi sem birtist í nýrri bók, Forystuþjóð, eftir þær Eddu Hermannsdóttur og Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur, en bókin er unnin í samvinnu við Samtök atvinnulífsins.

Viðskiptablaðið birtir hér bút úr viðtalinu við Árna:

Ég hugsa þátttöku kvenna í atvinnulífinu fyrst og fremst eins og kapítalisti en ekki á mjög heimspekilegum nótum. En við eigum auðvitað öll að vera jöfn, ég á fjórar dætur og einn son og ég vil að þær hafi sömu tækifæri og hann.

Ef ætlunin er að ráðast í fjárfestingu og búa til besta liðið í kringum hana, bestu stjórnina eða besta fjárfestahópinn þá hafa menn ekki unnið vinnuna sína vel ef þeir hafa útilokað strax helminginn af menginu sem stendur til boða og valið eingöngu karla til allra verka.

Þegar ég sé stjórnir eða framkvæmdastjórnir sem eru eingöngu settar saman af karlmönnum þá veit ég að það er hægt að gera betur. Hópurinn sem hefur þá valist er ekki eingöngu valinn út frá hæfni. Líkurnar á því að hæfasti hópurinn saman standi af fimm karlmönnum eru nánast engar.

Ég hugsaði þetta auðvitað ekki svona fyrst þegar ég byrjaði minn feril. Fjárfestirinn Warren Buffett vakti athygli mína á þessu. Hann er gallharður jafnréttissinni og vill meina að bestu dagar Bandaríkjanna í efnahagsmálum séu ennþá framundan.

Ástæðan sé sú að Bandaríkjamenn hafa ekki enn áttað sig á því að þeir hafa útilokað helming fólksins frá þátttöku í stjórnum og framkvæmdastjórnum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .