Embætti umboðsmanns skuldara hefur verið starfandi frá árinu 2010 en frá þeim tíma hefur embættinu borist 11.855 umsóknir um úrræði. Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, segir hópinn sem leiti til embættisins hafa breyst mikið frá þeim tíma.

„Hópurinn hefur breyst mikið frá hruni, og það sem er mikið áhyggjuefni núna er að yngra fólk er farið að leita til okkar, sá hópur hefur stækkað mjög mikið,“ segir Ásta Sigrún sem segir hlutfall fasteignaeigenda sem leitar aðstoðar hjá embættinu hafi minnkað meðan hlutfall leigjenda hafi stækkað.

„Við sjáum hjá okkur að hvort tveggja skortir fólk yfirsýn yfir eigin eyðslu og hvað það þýðir að taka til dæmis lán, eins og hvað það kostar að vera með yfirdrátt. Ég tala nú ekki um fólk sem hefur verið að taka smálán eða annað slíkt, þetta eru auðvitað mjög dýr lán. Neytendavitund mætti vera meiri, að fólk skoði hlutina áður en það stekkur út í skuldasúpuna.“

Þann 1. febrúar síðastliðinn hóf embættið fræðslu- og kynningarverkefni sem gengur út á samstarf við stofnanir og samtök sem eiga í samskiptum við einstaklinga sem eiga í fjárhagserfiðleikum.

„Einmitt núna legg ég mikla áherslu á að fræða almenning um þau úrræði sem við höfum yfir að ráða, sem er í fyrsta lagi ráðgjöf, og svo greiðsluaðlögun og fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar við gjaldþrotaskipti,“ segir Ásta Sigrún, en embættið hefur boðið þjónustumiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum upp á fræðslu fyrir starfsmenn sem sinna ráðgjöf til einstaklinga.

„Sem ríkisstofnun erum við fyrst og fremst þjónustustofnun sem er ókeypis, enda hefur fólk sem er í greiðsluerfiðleikum ekki ráð á að leita til lögmanna eða endurskoðanda eða annarra slíkra.“

Einnig hafa verið lögð drög að samstarfi við Vinnumálastofnun um fræðslu til einstaklinga í atvinnuleit sem og námskeiðahaldi, sérstaklega fyrir unga atvinnuleitendur.

„Við erum að fara inn í félagsþjónustuna með ákveðið verkefni en við erum að móta þennan hluta starfsins núna, við fórum til dæmis á Litla Hraun um daginn, enda ákveðinn markhópur þar sem þarf að ná til,“ segir Ásta Sigrún, en embættið hefur einnig heimsótt þátttakendur í Kvennasmiðjunni sem dæmi. „Málastabbinn sem vorum að vinna í gegnum var auðvitað mikill og erum við orðin reynslunni ríkari enda verður stofnunin sjö ára núna í sumar. Núna þarf að móta fræðsluefni sem hentar fyrir mismunandi markhópa.“

Nánar er fjallað um málið í Fjármálalæsi, aukablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.