Óhætt er að fullyrða að Suðurnesin séu það svæði landsins sem fóru hvað verst út úr hinum alræmdu kreppuárum sem fylgdu í kjölfar efnahagshrunsins. Atvinnuleysi fór upp í hæstu hæðir og hlutfallslega voru flestar nauðungarsölur á fasteignum á svæði og allt bættist þetta við brotthvarf varnarliðsins nokkrum árum áður. Að undanförnu hafa þó borist jákvæðari fréttir frá svæðinu. Atvinnulífið hefur eflst stórlega og íbúum á Reykjanesi fjölgar nú að jafnaði mest af öllum svæðum á landinu og miðað við áætlanir er hér aðeins um að ræða byrjunina á mikilli fólksfjölgun. Uppbygging sem þessi kallar á víðtæka innviðauppbyggingu og það setur bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ, sem undanfarið hefur átt í miklum fjárhagserfiðleikum, í erfiða stöðu. Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir ljóst að mjög erfitt verði að standa við samþykkt markmið um 150% skuldahlutfall árið 2022 og að öllum líkindum verði þau að víkja fyrir innviðauppbyggingu á svæðinu ef fram fer sem horfir.

Þetta eru engin geimvísindi

Mikið hefur verið rætt um fjármál Reykjanesbæjar í fjölmiðlum en fyrir um árið komst sveitarfélagið naumlega hjá því að skipuð yrði fjárhagsstjórn yfir bænum. Þá var skuldahlutfall bæjarins um 234% en samkvæmt sveitarstjórnarlögum hafa sveitarfélög ákveðinn frest til að koma því niður í lögbundið hámark, sem er 150%. Árni Sigfússon rifjar upp að innviðauppbyggingin á árunum fyrir efnahagskreppuna hafi kostað mikið og valdið því að sveitarfélagið gat ekki staðist kröfur Eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga um skuldahlutfall undir 150%.

„Við fórum vel yfir það hlutfall en tókst svo að sýna fram á að með þeirri tekjuaukningu sem var að koma inn þá ættum við að ná skuldaviðmiðinu fyrir árið 2022. En þá kemur aftur þessi mikla íbúabylgja sem við erum að horfa fram á svo það verður mjög erfitt að standast þessi viðmiðið ef íbúafjölgunin verður jafn mikil og stefnir í. Það er eins hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum að það þarf fyrst að fjárfesta í innviðunum og grunninum áður en tekjurnar koma inn, sem í okkar tilviki eru útsvars- og fasteignagjaldatekjur. Þetta er ögrandi verkefni sem öll sveitarfélög á vaxtarsvæðum standa frammi fyrir um þessar mundir, en þau hafa samkvæmt þessari reglu ekki leyfi til að fjárfesta umfram það. Á sama tíma liggur ljóst fyrir að það þarf að svara þessari auknu eftirspurn þó að tekjurnar komi kannski tveimur til þremur árum á eftir uppbyggingunni. Þetta eru engin geimvísindi. Þetta eru vissulega reglur og þær veita ákveðið aðhald, en það þarf að íhuga alvarlega í svona fólksfjölgun hvort eigi að ráða för, eitthvert skuldaviðmið eða þörfin til að byggja upp. Það þarf að hugsa þessa hluti fyrir fram, það þarf að fjárfesta í innviðum, fjármagna þá uppbyggingu og síðan fylgja tekjurnar á eftir en þær eru bara ekki samhliða, því miður,“ segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.