Jón Sigurjónsson í úra- og skartgripaversluninni Jón & Óskar hefur áhyggjur af ákvörðun nýs meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í Reykjavík um að lokun Laugavegar fyrir bílaumferð verði allt árið um kring.

„Það er auðvitað verið að jarða stóran hluta af verslunni hérna. Það eins og þetta blessaða fólk gleymi því að það kemur vetur og þá kemur kuldi og bylur. Hver heldurðu að komi niður á Laugarveg þegar það er bylur dag eftir dag, til þess að labba mikið um Laugaveginn til þess að fara í eina og eina búð?“ spyr Jón sem segir þó ekki hlaupið fyrir sitt fyrirtæki að fara.

„Við erum í okkar eigin húsnæði sem við erum búnir að byggja upp hérna í gegnum árin, enda verið hér í tæp 50 ár. Við höfum alltaf verið miðbæjarmenn og það er ekki hlaupið að því að stökkva í burtu. Það sem bjargar okkur er að við erum með verslanir í verslunarmiðstöðvunum, bæði inni í Kringlunni og í Smáralind og núna er aukningin öll þar.“

Íslendingar hættir að versla í miðbænum

Jón segir að auðvitað reyni fyrirtækið að ná til ferðamanna í miðbænum en tekur fram að ekki sé hægt að lifa á því að selja þeim eingöngu. „Hvað lifa menn lengi á götu þar sem er engin umferð, því þú kemst ekki að götunni?“ spyr Óskar sem segir að þeir sjái í auknum mæli að Íslendingar séu hættir að fara í miðbæinn að versla.

„Það er eiginlega vonlaust, segja þeir, það er ekkert gaman að fara þangað lengur. Ef loka á aðkomu svona að viðskiptasvæðum, þá færa menn sig bara til, þar sem aðgengið verður í lagi. Það er akkúrat það sem við erum að gera, við erum að styrkja okkur í verslunarmiðstöðvunum. Við erum til dæmis að stækka við okkur í Smáralind, sem hefur verið rosalega öflug hjá okkur núna síðustu þrjú ár, en það eru Íslendingarnir sem koma þangað.“

Dómínóáhrifin hafi líka áhrif á kaffihúsin

Jón hefur áhyggjur af þróuninni og segir að ef rótgrónar verslanir fari að yfirgefa miðbæinn vegna stefnu meirihlutans þá geti það haft dómínóáhrif á annan rekstur á svæðinu. „Það er ekkert betra fyrir kaffihúsið að þrauka af veturinn ef það er blindbylur í marga daga,“ bendir Jón á spurður hvort þróunin verði áfram í þá átt að barir og kaffihús komi í stað verslananna.

„Þannig að þegar upp er staðið, þá verðum við með rosalega einsleita götu.“ Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag hefur oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn tekið í sama streng og haft áhyggjur af aukinni einsleitni í miðborginni og fækkun bæði verslana og íbúa í miðborginni vegna stefnu meirihlutans.