Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV), sem er bandalag sveitarfélaga á Vestfjörðum, sendi í vikunni atvinnuveganefnd Alþingis bókun, sem stjórnin samþykkti á fundi sínum 24. mars vegna samnings stjórnvalda við Matorku.

Fyrirtækið Matorka undirritaði skömmu fjárfestingarsamning við stjórnvöld vegna áætlana um að reisa 3 þúsund tonna fiskeldi uppi á landi við Grindavík. Samkvæmt samningnum fær fyrirtækið 426 milljóna króna ríkisaðstoð í formi afsláttar af sköttum og opinberum gjöldum.

„Það er mat stjórna FV að hér séu stjórnvöld að veita nýju fyrirtæki verulegt samkeppnisforskot á fyrirtæki sem starfa í sömu atvinnugrein," segir í bókuninni sem send var atvinnuveganefnd. „Stjórn FV bendir á að fyrirtækin hafa um langt árabil lagt fjármuni og vinnu að þróun í eldis og ekki síst markaðssetningu á bleikju á erlendum mörkuðum. Samtímis eru þessi fyrirtæki mikilvægir aðilar í atvinnulífi sveitarfélaga sem búa við einhæft og brothætt atvinnulíf. Skert samkeppnisstaða þeirra með aðgerðum stjórnvalda geta því leitt til erfiðleika í rekstri þeirra með fækkun starfa eða lokun starfsemi.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga beinir því til Alþingis sem hefur nú frumvarp um ívilnanir til umfjöllunar, að taka þetta mál til rækilegrar endurskoðunar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .