Fjölmargir stangaveiðimenn og hagsmunaaðilar tengdir laxveiði hafa um árabil gagnrýnt uppbyggingu laxeldis í sjó harðlega. Gagnrýnin hefur helst beinst að mengun vegna laxalúsar, sem getur verið skaðleg villtum seiðum sem ganga til sjávar sem og hættu á erfðamengun þegar laxar sleppa úr kvíum. Í dag og ná næstu árum verður mesti þunginn í laxeldinu á Vestfjörðum. Benda stangaveiðimenn á að í Ísafjarðardjúpi séu nokkrar gjöfular laxveiðiár.

„Við höfum gagnrýnt eldi í opnum sjókvíum á norskum ógeldum laxi," segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. "Við höfum mestar áhyggjur af erfðamengun þegar eldislax sleppur og blandast þeim villta. Erlendar tölur sýna að allt að 3% af þeim fiski sem fer í kvíar sleppur. Ef við tökum dæmi um 100 þúsund tonna eldi á ári þá þýðir það að það þarf að setja 25 milljónir seiða í kvíar á hverju ári. Ef 3% af þeim sleppa þá eru það 75 þúsund laxar. Jafnvel þó framleiðslan væri helmingi minni þá má gera ráð fyrir að 37.500 laxar sleppi."

Jón Helgi gagnrýnir að hér á landi sé verið að útdeila takmörkuðum gæðum fyrir litla fjármuni og bendir á að í Noregi kosti nokkur hundruð milljónir að fá starfsleyfi fyrir laxeldi. Hann segir að í Noregi séu fá svæði eftir fyrir laxeldi og því séu norsk eldisfyrirtæki  í auknum mæli að koma hingað í leit að nýjum svæðum.

„Raunverulega eru norsku eldisfyrirtækin að kaupa upp alla þessa framleiðendur hérna. Það er í raun verið að afhenta þessa auðlind til norskra eldisfyrirtækja fyrir lítinn pening. Maður hefur heyrt að hér séu menn að sækja um starfsleyfi einungis til að selja það áfram."

Jákvætt fyrir landsbyggðina

Höskuldur Steinarsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, tekur undir að sjókvíaeldi við strendur Íslands séu takmörkuð gæði.

„Það er erfitt að finna einhver rök gegn því að einhvern tímann í framtíðinni verði ákveðin verðmæti í fólgin leyfunum sjálfum," segir hann og bætir við að vissulega sé alltaf hætta á erfðablöndun.

„Hættan er raunveruleg," segir hann. "Við ætlum ekki að þræta fyrir það eða vera svo miklir kjánar að að halda því fram að hún sé ekki til staðar. Það sem ég er hins vegar ekki tilbúinn að samþykkja er að taka sleppitölur frá Noregi og heimfæra upp á Ísland. Það sem gerst hefur hér er að búið að er að setja mjög strangar reglur um sjókvíaeldi. Búið er að loka stórum svæðum við strendur landsins og hlutfallslega margfalt stærri svæðum en í Noregi. Þannig er búið að vernda margar af bestu laxveiðiám landsins. Síðan má nefna að hér er búið að innleiða alla ströngustu staðlana sem við koma laxeldi og það er eitthvað sem Norðmenn gerðu ekki fyrr en á árunum 2006 til 2008. Það er því ekki rétt að taka sleppitölur frá Noregi 30 ár aftur í tímann og heimfæra þær yfir á Ísland því slysasleppingum snarfækkaði í Noregi eftir að þeir tóku sín mál gegn fyrir 8 til 10 árum."

Höskuldur segir að oft gleymist hversu jákvæð þessi atvinnuuppbygging sé fyrir landsbyggðina. „Það eru um 200 manns að vinna við fiskeldi á Vestfjörðum í dag. Þetta er gjörbreyta landslaginu í atvinnumálum þar."


Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .