Í nýlegu erindi Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, sem hann flutti á málstofu um Sundabrautina kom fram að svo virðist sem skortur á innviðafjárfestingum sé alþjóðlegt vandamál. Opinber fjárfesting hefur farið lækkandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í Evrópu síðan á áttunda áratugnum, úr rúmlega 5% í um 2,5%, og hefur hlutfallið sérstaklega lækkað frá hruni. Nú er svo komið að Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, metur fjárfestingarþörf í innviðum um helmingi hærri eða 4,1% af vergri landsframleiðslu.

Ástandið er síst skárra hér á landi en nýfjárfesting og viðhald mannvirkja, ekki síst samgöngumannvirkja, hefur setið á hakanum og áætlað hefur verið að yfir 500 milljarða króna vanti á næstu 10 árum til að svara þörfinni fyrir viðhald og uppbyggingu innviða svo vel megi vera. Áhrifin hin síðari ár eru að verða enn áþreifanlegri, sem sjá má á aukinni almennri umferð um vegi landsins og sliti á vegum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Ef einungis er litið til samgangna, hefur verið áætlað að verja þyrfti um 100 milljörðum nú þegar til að koma vegakerfi landsins í viðunandi stand miðað við nú verandi ástand og umferðarmagn. Þá ýtir aukning ferðamanna einnig undir þörfina en í fyrirlestri Gísla Haukssonar, forstjóra GAMMA Capital Management, um fjárfestingu í innviðum, kemur m.a. fram að búast megi við að 1,5-1,6 milljónir ferðamanna leggi leið sína til Íslands í ár.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .