Um áramótin losnuðu 82 kjarasamningar, því til viðbótar munu 152 samningar losna í mars. Samningaviðræðum Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness ( VFLA ) við Samtök atvinnulífsins (SA), var vísað til ríkissáttasemjara fyrir jól. Samningsaðilar funduðu með ríkissáttasemjara á milli jóla og nýárs og aftur í gær en þá var farið yfir kröfugerðir stéttarfélaganna, sem og samningsáherslur SA. Í fyrradag vísaði síðan Verkalýðsfélag Grindavíkur sínu máli til sáttasemjara.

Á sama tíma og samningar þessara félaga eru komnir á borð sáttasemjara eiga Samtök atvinnulífsins í samningaviðræðum nánast daglega við önnur félög. Má þar nefna viðræður SA við önnur félög en Eflingu innan Starfsgreinasambands Íslands, iðnaðarmannafélögin og Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV).

Guðbrandur Einarsson er formaður Landssambands íslenskra verslunarmanna en innan sambandsins eru ellefu aðildarfélög, þar á meðal VR . Nú bregður svo við að LÍV hefur samningsumboð fyrir 10 af sínum 11 aðildarfélögum því VR sér sjálft um sína samningagerð og hefur vísað sinni deilu til sáttasemjara eins og áður sagði. Í þeim 10 félögum, sem LÍV semur fyrir, eru á bilinu 6 til 7 þúsund félagsmenn og eru flestir þeirra á landsbyggðinni. Er þetta skrifstofufólk, sem og fólk sem starfar í verslun og ýmiskonar þjónustu, meðal annars ferðaþjónustu.

Aldrei upplifað þetta

Guðbrandur segir að þetta sé í fyrsta skiptið svo hann muni sem búið sé að kljúfa verkalýðshreyfinguna í tvennt með þessum hætti.

„Ég er búinn vera í þessu í 20 ár og aldrei upplifað þetta svona,“ segir Guðbrandur. „Það hefur alltaf verið þannig að þrátt fyrir að VR sé með samningsumboðið fyrir sína félagsmenn þá hafa VR og Landssambandið haldist í hendur í gegnum kjarasamningsgerðina. Við gerum það ekki núna. VR ræður auðvitað hvernig það hagar sínum málum en mér fannst þetta samt vera stílbrot og mér finnst leitt að VR hafi ákveðið að fara þessa leið.

Ég hef ekki vanist því að kjarasamningum sé vísað til ríkissáttasemjara áður en sá gamli rennur út,“ segir hann og skírskotar til ákvörðunar VR , Eflingar og VLFA um að vísa sínum viðræðum til sáttasemjara fyrir jól þegar samningarnir runnu ekki út fyrr en um áramótin.

„Við vildum ekki fara þessa leið. Við töldum eðlilegt að halda viðræðunum við SA áfram því okkur finnst við bera ábyrgð á því að landa samningi og bjóða félagsmönnum um að kjósa um hann áður en gripið er til einhverra aðgerða.“

Rétt að reyna á samningsviljann

Guðbrandur segir að viðræðum LÍV við SA þoki áfram. Fundað var á mánudaginn, aftur í gær og síðan er fundur á morgun. „Þetta tekur sinn tíma. Við eigum í viðræðum en til hvaða niðurstöðu þær munu leiða er ekki hægt að segja til um á þessum tímapunkti. Við töldum hins vegar rétt að láta reyna á samningsviljann áður en við færum að vísa málinu til ríkissáttasemjara. Með öðrum orðum þá teljum við ekki fullreynt að við náum samningi án aðkomu hans.

Á meðan það strandar ekki þá sé ég ekki ástæðu til að vísa málinu til ríkissáttasemjara. Oft og einatt höfum við gert samninga án hans aðkomu. Við fórum ekki til sáttasemjara vorið 2015 fyrr en eftir hvítasunnuna þegar samningsgerð var nánast lokið. Ég hef alltaf talið rétt að menn ræði saman og reyni að komast að niðurstöðu áður en farið er í einhverjar harðar aðgerðir. Verkföll kosta ekki bara fyrirtækin mikið heldur líka fólkið okkar.“

Skoða samflot

Kröfugerð aðildarfélaga LÍV er sú sama og hjá VR og þar af leiðandi mjög svipuð kröfugerð Starfsgreinasambandsins.

„Kröfugerðin sem var lögð fram er bæði yfirgripsmikil og flókin,“ segir Guðbrandur. „Ég lít þannig á að við séum rétt núna búin að fara yfir öll efnisatriðin. Næsta skref er að kafa dýpra ofan í þetta. Við þurfum meðal annars að fara yfir okkar launatöflur. Í dag er lágmarkstekjutrygging 300 þúsund krónur en okkar lægstu taxtar eru 260 þúsund þannig að við þurfum að búa til nýjar töflur.

Við erum þessa dagana að skoða möguleikana á samstarfi og samvinnu þeirra félaga sem ekki vísuðu til ríkissáttasemjara og er ég þá að tala um okkur hjá LÍV, Starfsgreinasambandið, fyrir þá utan Eflingu, og iðnaðarmenn. Við erum öll innan ASÍ og erum að skoða þessi mál.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .