Þriggja manna verkefnisstjórn hefur verið skipuð til að halda áfram þeirri vinnu sem þegar er hafin við skoðun á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Verkefnisstjórnin mun halda áfram að vega og meta með ábyrgum hætti hvort hagkvæmt sé að ráðast í lagningu sæstrengs. Þetta kom fram í ávarpi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Haustfundi Landsvirkjunar sem haldinn er í Hörpu.

Hópinn skipa Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, og Ingvar Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þessi vinna er framhald af niðurstöðu skýrslunnar sem ráðgjafahópur ráðuneytisins vann í fyrra.

Á fundinum sagðist Ragnheiður Elín hafa hitt Michael Fallon, orkumálaráðherra Bretlands, í mars á þessu ári. Þar sagðist hún hafa mætt fullum skilningi orkumálaráðherra á að ákveðinn vinna þyrfti að fara fram hér áður en viðræður við Breta gætu hafist.