Verkföll hótelstarfsmanna og rútubílstjóra hefjast á 28. mars og standa til föstudags 29. mars, frá miðnætti til miðnættis í 48 tíma alls. Efling greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Þá kemur fram í tilkynningunni að starfsfólk hótela ætlar að sýna samstöðu með því að koma saman í kröfustöður við hótelin. Fjórar kröfustöður verða hvorn dag kl. 8.00-15.00. Gengið verður á milli nærliggjandi hótela frá tveimur stöðum, Austurvelli og Hlemmi.

Þá segir jafnframt að „Efling líti svo á að verkfallið nái til allra sem vinna störf samkvæmt kjarasamningum Eflingar og VR, einnig ef einstaklingur er skráður í rangt stéttarfélag. Einu undantekningarnar eru hóteleigendur og æðstu stjórnendur.“

Rútubílstjórar muni svo koma saman á skrifstofu Eflingar og skipta sér á vaktir til að verja verkfallið. Aðgerðir hefjist á miðnætti. „Efling álítur allan akstur hópferðabifreiða á félagssvæði Eflingar, af hálfu annarra en eigenda og æðstu stjórnenda, vera verkfallsbrot.“