Dæmi eru um að verktakar hafi gefist upp á skipulagsyfirvöldum í Reykjavík og hafa tekið ákvörðun um að hætta uppbyggingu í miðborginni vegna mikilla og ítrekaðra tafa á afgreiðslu mála. Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið segir að geðþótti starfsmanna borgarinnar hafi valdið fyrirtækjum miklu fjárhagslegu tjóni.

Þessi óánægja kemur meðal annars fram í bréfi sem að Samtök iðnaðarins sendu til aðstoðarmanns Dags B. Eggertssonar borgarstjóra í maí, þar sem óskað var eftir fundi, og er enn beðið eftir boði á þann fund. Samtökin benda á að ríflega helmingi mála hafi verið frestað hjá byggingarfulltrúa í Reykjavík árið 2015. Það hafi kostað fjölda fyrirtækja fúlgu fjár.

Í bréfinu segir meðal annars að ákvarðanir byggist jafnvel „á persónulegri afstöðu viðkomandi starfsmanns,“ og enn fremur gagnrýna Samtök iðnaðarins „óviðeigandi athugasemdir,“ sem tefji mál. SI taka dæmi af því hvernig það taki jafnvel 30 daga að fá leyfi vegna afnota á borgarlandi. Til samanburðar hafi leyfið áður fengist samstundis. Samtökin fara fram á það að borgin starfi „í þágu borgaranna“.

Flýja borgina

Umsvifamikill verktaki sem ræddi við Morgunblaðið undir nafnleynd segist hættur að byggja í miðborginni. Hann segir að stór hluti af starfsfólki hjá byggingafulltrúa borgarinnar ráði ekki við sína vinnu og segir að oft og tíðum misfari menn þar vald sitt. Annar verktaki sem blaðið ræddi við, sagði að hægagangur og óþarfar athugasemdir borgarinnar hafi hækkað byggingarkostnað umtalsvert og að uppbygging hefði tafist.

Veitingamaður í Reykjavík sem ræddi einnig við Morgunblaðið undir nafnleynd sagði að hann hefði orðið gjaldþrota ef hann ætti ekki öfluga bakhjarla. Vegna athugasemda um atriði sem skiptu engu máli hafi fyrirtæki hans tapað veltu upp á tugi milljóna. Að lokum eru nefnd dæmi í greininni um verkefni sem gætu tafist. En Til að mynda tefst fyrirhugaðri opnun Iceland Parliament Hotel við Austurvöll um að minnsta kosti ár. Einnig hefur bygging Icelandair -hótels í Hafnarstræti tafist.