Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir helgi að hugmynd væri um byggingu 20 þúsund manna þjóðarleikvangs í Laugardal. Áætlaður kostnaður er um 8 milljarðar króna og er þá gert ráð yfirbyggðum velli með opnanlegu þaki. Forsvarsmenn Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) eru nú að fara yfir skýrslu þar sem hagkvæmni nýs Laugardalsvallar er metin.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er meðal annars komist að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að óbreytt ástand sé óásættanlegt fyrir alla þá sem að vellinum koma. Laugardalsvöllur í núverandi mynd sé óviðunandi fyrir KSÍ, leikmenn, áhorfendur, frjálsar íþróttir, borgaryfirvöld og skattgreiðendur. Með þetta að leiðarljósi var skoðað hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Eins og áður sagði vann Borgarbragur hagkvæmnisathugunina í samvinnu við Lagardère Sport en einnig bandaríska fyrirtækið AEG, sem líkt og það franska, sérhæfir sig í uppbyggingu leikvanga og markaðsráðgjöf tengda íþróttum og skemmtanaiðnaðinum. AEG á, eða kemur að rekstri, yfir 100 íþróttaleikvanga og -halla, sem og tónleika- og leikhúsa víðsvegar um heiminn. Má til dæmis nefna Staples Center í Los Angeles og Globe Arena í Stokkhólmi.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins lýtur hagkvæmnisathugunin eingöngu að byggingu nýs vallar og þá án annarrar þjónustu eins og til dæmis verslana. Var það gert vegna þess að ef byggja á upp aðra þjónustu samhliða nýjum velli þarf að breyta skipulagi svæðisins og stækka það og því þótti ekki tímabært að fara í þá vinnu að svo stöddu. Þetta þýðir hins vegar ekki að búið sé að útiloka uppbyggingu annarrar þjónustu samhliða bygginu nýs vallar eins og kemur fram í orðum formanns KSÍ.

„Ég hef allan tímann sagt að ef það á að ráðast í framkvæmdir í Laugardalnum þá þurfa mannivirkin að þjóna meiri tilgangi en bara í kringum knattspyrnu," segir Geir Þorsteinsson formaður. „Það þarf að skapa meiri rekstrartekjur en fást eingöngu með knattspyrnuleikjum. Það er alveg ljóst."

250 til 300 milljónir

Ef engin önnur þjónusta verður byggð samhliða vellinum má gera ráð fyrir árstekjum upp á um það bil 250 til 300 milljóna króna samkvæmt heimildum blaðsins. Ef önnur þjónusta verður byggð á svæðinu, eins og til dæmis hótel, þá gjörbreytast allar forsendur og tekjumöguleikar verkefnisins aukast, sem þýðir að auðveldara yrði að fá fjárfesta til að leggja fé í það.

KSÍ mun fljótlega taka ákvörðun um það hvort haldið verður áfram með verkefnið. Næsti fasi er lýtur að því að frumhanna leikvöllinn, gera kostnaðargreiningu og búa til gögn til útboðs. Ef KSÍ ákveður að halda áfram með verkefnið næsta skref unnið í samstarfi við erlendar arkitekta-  og verkfræðistofur. Gert er ráð fyrir að þessi vinna taki þrjá til fjóra mánuði og ætti hún því að klárast um eða rétt eftir áramót.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .