Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu fer þverrandi. Ferðamönnum fjölgar ár frá ári, en verðlag fer hækkandi og vísbendingar eru um að afkoma ferðaþjónustunnar sé að versna, afbókanir að aukast og að ferðamenn séu farnir að stytta dvöl sína hér á landi. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, segir samkeppnistöðu ferðaþjónustunnar mikið áhyggjuefni. Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna gerir illt verra og gæti ferðaþjónustan hrunið á skömmum tíma.

Viðvörunarbjöllur

Fyrr í mánuðinum birti Alþjóðaefnahagsráðið skýrslu um samkeppni á sviði ferðaþjónustu á heimsvísu árið 2017. Þar var Ísland í 25. sæti af 136 á lista yfir samkeppnishæfustu ferðamannastaði heimsins. Ísland fellur niður um sjö sæti frá því að ráðið gaf út sambærilega skýrslu árið 2015. Það sem dregur niður samkeppnishæfni landsins er einkum hátt verðlag og íþyngjandi rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja vegna gengisstyrkingar krónunnar og mikilla kostnaðarhækkana. Aðrir þættir sem hafa áhrif til lækkunar eru menningarafþreying, ráðstefnuhald, náttúruauðlindir og innviðir á borð við vegakerfið og hafnir.

„Það er ljóst af þessari skýrslu að samkeppnistaða íslenskrar ferðaþjónustu er að versna,“ staðfestir Helga. „Við erum nú þegar farin að sjá vísbendingar um að ferðamaðurinn sé að segja „hingað og ekki lengra“. Afbókanir eru að aukast og ferðamenn eru farnir að stytta Íslandsdvölina að meðaltali, og er það dæmi um breytt neyslumynstur. Við áætlum að afkoma fyrirtækja í öllum greinum ferðaþjónustu hafi að jafnaði versnað í fyrra, þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað. Skýrslan sýnir einnig að við erum hvorki að að efla sjálfbærni ferðaþjónustunnar til framtíðar, sem byggist á náttúrunni og menningu, né laða hingað verðmætasta markhópinn, sem eru ráðstefnuog hvataferðagestir. Ég hef því verulegar áhyggjur af stöðunni.“

Gerir illt verra

Samkvæmt fjármálaáætlun hins opinbera til ársins 2022 stefnir ríkisstjórnin að því að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 11% upp í efra þrep á næsta ári og lækka efra þrepið úr 24% í 22,5%. Helga segir að það versta sem hægt sé að gera miðað við núverandi samkeppnisstöðu sé að hækka skatt á atvinnugreinina.

hækka skatt á atvinnugreinina. „Þessi breyting mun flækja virð- isaukaskattskerfið og auka óskilvirkni þar sem viðskipti milli þrepa í ferðaþjónustu aukast enn frekar. Þá höfum við áhyggjur af því að hún muni auka hvatann til undanskota og blása lífi í svarta hagkerfið í ferðaþjónustu, t.d. í íbúðagistingu, hópbifreiðaakstri og leiðsögn. Breytingin gengur því gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum,“ segir Helga.

Helga telur að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna muni koma verst niður á samkeppnisstöðu minni ferðaþjónustufyrirtækja, landsbyggðarinnar og heiðarlegra fyrirtækja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .