Eftir nokkra hækkun á mörkuðum á mánudag, gamlársdag, enduðu bandarísk hlutabréf á því að eiga sitt versta ár í áratug, þegar fjármálahrunið reið yfir. Þetta var ár mikilla sveiflna, með methækkunum og snörpum lækkunum. Er þetta til að mynda í fyrsta sinn sem vísitölur hafa lækkað í heildina eftir hækkanir fyrstu þrjá ársfjórðungana.

Þannig lækkaði bandaríska S&P 500 vísitalan um 6,2% yfir árið og Dow Jones Industrial vísitalan lækkaði um 5,6% frá upphafi til loka árs 2018. Nasdaq Composite vísitalan lækkaði um 3,9% á árinu, en fyrir áratug lækkaði hún um 40%.

Er þetta fyrsta árslækkun S&P 500 og Dow vísitalnanna í þrjú ár, en Nasdaq hafði hins vegar náð því að hækka sex ár í röð áður en vísitalan lækkaði nú.

Eftir hækkun fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins nam lækkun S&P 500 vísitölunnar 13,97%, en Nasdaq vísitalan lækkaði enn meira eða 17,5% á síðustu þremur mánuðum ársins. Lækkun Dow var sú versta á tímabilinu frá fyrsta ársfjórðungi 2009, en hún lækkaði nú um nærri 12%.

Mjög stór hluti lækkana ársins varð í desember, en vísitöluarnar þrjár lækkuðu allar um að minnsta kosti 8,7 prósentustig í mánuðinum. Þannig var lækkun Dow og S&P 500 vísitalnanna í desember sú versta síðan 1931, og mesta mánaðarlega lækkunin síðan febrúar 2009.

Fjárfestar losuðu sig við hlutabréf í lok árs, en þeir hafa auknar áhyggjur af því að hagkerfið sé að hægja á sér, á sama tíma og þeir óttast að seðlabankinn sé að gera mistök með of hraðri hækkun stýrivaxta. Á sama tíma eru áhyggjur að magnast upp vegna viðskiptadeilna Bandaríkjanna og Kína, sem hefur haft áhrif á hlutabréfaverð að því er CNBC segir frá.