Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven formaður Sósíaldemókrata, sem þrátt fyrir nokkuð tap eru enn stærsti flokkurinn eftir kosningar í landinu í gær, hefur boðið hægriblokkinni til viðræðna um áframhaldandi stuðning.

Flokkurinn sem ráðið hefur lögum og lofum í landinu í hartnær öld fékk 28,4% atkvæða, en leita þarf aftur til ársins 1911 þegar hann fékk 28,5% atkvæða til að finna sambærilegar tölur.

Segjast hafa hoggið á nýnasískar rætur flokksins

Svíþjóðardemókratar, sem hægri og vinstriblokkirnar sammæltust eftir síðustu kosningar um að útiloka frá samstarfi vegna stefnu flokksins í innflytjendamálum, hafa hins vegar boðið hægriblokkinni stuðning til að taka við stjórnartaumunum í landinu.

Flokkurinn bætti við sig 13 þingsætum og um 5 prósentustigum frá síðustu kosningum en náði ekki að verða annar stærsti flokkurinn eins og leit út um tíma í stað Hófsama flokksins, stærsta hægriflokksins í bandalaginu.

Svíþjóðardemókratar eiga rætur í nýnasistahreyfingum í landinu, en undir stjórn Jimme Åkesson sem verið hefur formaður frá árinu 2005 hefur flokkurinn losað sig við alla sem þeir kalla öfgamenn og mildað ímynd sína.

Lokatölur á miðvikudag

Lokatölur munu ekki verða endanlega birtar fyrr en á miðvikudag þegar utankjörfundaratkvæði verða talin, en niðurstaðan er nokkuð ljós eftir að 99,8% allra atkvæða hafa nú verið talin.

Rauðgræna bandalag vinstriflokkanna sem stýrt hafa minnihlutastjórn í landinu síðustu ár með hlutleysi hægriblokkarinnar hafa 144 þingsæti af 349, en Bandalag hægriflokkanna hafa 143 sæti. Svíþjóðardemókratar hafa loks 62 þingsæti, svo þeir gætu myndað eða stutt við meirihluta hvorrar blokkarinnar fyrir sig.

Fimmtungur íbúa fæddir utan Svíþjóðar

Flestir flokkar í hægriblokkinni hafa aðlagað stefnu sína í helsta máli Svíþjóardemókrata, innflytjendamálum að einhverju leiti í átt til meiri ábyrgðar og stjórn á málaflokknum þvert á fyrri stefnu um opin innflutning, þó síst Miðflokkurinn sem nýtur stuðning bænda í landinu.

Fengu slíkar hugmyndir sérstaklega byr undir báða vængi eftir að ríflega 150 þúsund innflytjendur utan Evrópu komu til landsins á einu ári fyrir þremur árum, en nú er um fimmtungur íbúa landsins fæddur utan Svíþjóðar.

Eins og staðan er núna vantar eitt þingsæti til þess að hinir hægriflokkarnir geti myndað meirihluta með Svíþjóðardemókrötum án aðkomu Miðflokksins sem bætti töluvert við sig í kosningum.

Hér má sjá bráðabirgðaniðurstöður kosninganna en Rauðgræna bandalagið samanstendur af Sósíaldemókrötur, Vinstriflokknum og Græningjum, en Hægribandalagið af Hófsama flokknum, Miðflokknum, Frjálslynda þjóðarflokknum og Kristilegum demókrötum:

  • Sósíaldemókratar fóru úr 31,0% árið 2014 í 28,4%, töpuðu 12 þingsætum, fengu 101.
  • Hófsami flokkurinn fór úr 23,3% í 19,8% og missti 13 þingsæti, fékk 70.
  • Svíþjóðardemókratar fóru úr 12,9% í 17,6%, bættu við sig 13 þingsætum og fengu 62.
  • Miðflokkurinn fór úr 6,1% í 8,6%, bættu við sig 9 þingsætum og fengu 31.
  • Vinstriflokkurinn fór úr 5,7% í 7,9%, bættu við sig 7 þingsætum og fengu 28.
  • Kristilegir demókratar fóru úr 4,6% í 6,4%, bættu við sig 7 þingsætum.
  • Frjálslyndi þjóðarflokkurinn stóð nánast í stað, fóru úr 5,4% í 5,5% og héldu sínum 19 þingmönnum.
  • Femíníska framboðið fékk svo engan þingmann með 0,4% atkvæða.