Tveggja mánaða löngu yfirtökustríði milli Nasdaq og Dubai lauk í gær þegar félögin komust að samkomulagi um yfirtöku á norrænu kauphallarsamstæðunni OMX. Það er hins vegar allsendis óvíst hvort af samkomulaginu verður í kjölfar þess að tilkynnt var um kaup katarsks fjárfestingarsjóðs á 10% hlut í OMX.

Kauphöllin í Dubai og bandaríska kauphallarfyrirtækið Nasdaq tilkynntu í gærmorgun að samkomulag hefði náðst á milli félaganna um yfirtöku á OMX kauphöllinni, sem meðal annars á og rekur kauphallir á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum. Samkvæmt því mun Nasdaq verða eigandi að OMX, en í staðinn fær kauphöllin í Dubai 19,9% hlut - atkvæðisréttur takmarkast þó við 5% - í sameinuðu kauphallarfyrirtæki, auk þess sem Dubai kaupir 28% hlut Nasdaq í kauphöllinni í London (LSE), sem er metin á um 1,8 milljarð Bandaríkjadala. Nasdaq heldur eftir 3,5% hlut í LSE.

Hins vegar gætu fréttir af kaupum Qatar Investment Authority (QIA), fjárfestingarsjóðs í eigu stjórnvalda í Katar, á 20% hlut í LSE og 10% hlut í OMX sett strik í reikninginn, að mati fjármálaskýrenda. Það er talið að QIA hafi keypt hlutinn í LSE af bandarískum fjárfesti og vogunarsjóði, sem hvor fyrir sig áttu 10% hlut. Dow Jones-fréttastofan greinir frá því að QIA, sem á síðustu vikum hefur verið orðað við hugsanlegt yfirtökutilboð í norrænu kauphöllina, hafi hvatt hluthafa OMX um að bíða með að samþykkja sameiginlegt tilboð Nasdaq og Dubai. Þau ummæli - ásamt kaupum sjóðsins á 10% hlut síðar um daginn - eru sterklega talin gefa til kynna að hugsanlega sé von á nýju verðstríði um OMX.

Forstjóri LSE, Clara Furse, fagnaði kaupum katarska fjárfestingarsjóðsins og sagði að þau myndu veita kauphöllinni í London "einstaka strategíska stöðu og frábærar horfur" til lengri tíma litið. Gengi bréfa í LSE hækkuðu um 15% eftir að tilkynnt var um að Dubai og Katar hefðu eignast meira en 50% hlut í kauphöllinni. Hækkunin er rakin til væntinga fjárfesta um að LSE verði enn og aftur yfirtökuskotmark, en stjórnendur kauphallarinnar í Dubai neituðu hins vegar slíkum orðrómi. Stjórn kauphallarinnar í London hefur á stuttum tíma staðið af sér fjórar óvinveittar yfirtökutilraunir; frá þýsku kauphöllinni, Macquarie, Ástralska bankanum og nú síðast Nasdaq.

Gengi bréfa í OMX lækkaði upphaflega þegar tilkynnt var um samkomulag Nasdaq og Dubai í gærmorgun, en hækkaði um 6% þegar fréttist af kaupum katarska fjárfestingarsjóðsins á 10% hlut í norrænu kauphallarsamstæðunni, en þarlend stjórnvöld óttast aukna samkeppni kauphallarstarfsemi í Miðausturlöndum. Reuters-fréttastofan hefur stjórnarformanni kauphallarinnar í Dubai, Essa Kazim, að hann útiloki ekki að sameinað kauphallarfyrirtæki Nasdaq, OMX og Dubai ráðist í yfirtökur á kauphöllum í Miðausturlöndum eða öðrum alþjóðamörkuðum.

Kaup katarska fjárfestingarsjóðsins í LSE og OMX endurspeglar þá baráttu sem á sér stað milli Sameinuðu arabísku furstadæmanna og stjórnvalda í Katar um að koma á fót leiðandi fjármálamiðstöð í Miðausturlöndum, en á undanförnum árum hefur mikil samþjöppun átt sér stað meðal alþjóðlegra kauphalla á heimsvísu. Frá árinu 2005 hafa kauphallir um allan heim ráðist í yfirtökur og samruna að verðmæti 64 milljarða Bandaríkjadala. Sérfræðingar segja að ekkert bendi til þess að þeirri samrunaþróun sé lokið.