Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, er þriðja kynslóð útgerðarmanna í fjölskyldunni. Forsvarsmenn fyrirtækisins gengu í lok síðasta árs frá samningi á nýsmíði á línuskipi, en skipið verður það fyrsta í langri sögu félagsins sem smíðað er sérstaklega fyrir Vísi. Saga félagsins hefur verið farsæl í hálfa öld þótt forsagan, sem hefst 1930, sé saga áfalla og baráttu. Páll, faðir Péturs, varð föðurlaus eftir að nýsmíðaður Hilmir ÍS 39 fórst í sínu fyrsta verkefni 1943 og með honum allir ellefu sem um borð voru. Skipið fannst aldrei. Fjölnir ÍS 7 var sigldur niður við Bretlandsstrendur árið 1945 og fórust með honum fimm menn sem teljast vera síðustu mannfórnir Íslendinga í styrjöldinni.

Mannbjörg varð þegar fyrsta skip föður hans sökk í línuróðri 1964. Fyrir tryggingafé þess skips var fjárfest í Vísi í Grindavík. Vísir veltir nú 6,5 milljörðum og gæti því talist til meðalstórra fyrirtækja í sjávarútvegi, þó svo að ekki sé til almenn mælistika á það hvernig eigi að flokka sjávarútvegsfyrirtæki eftir stærð. Sú flokkun gæti þó skipt verulegu máli verði farin sú leið að lækka veiðigjöld á litlar og meðalstórar útgerðir eins og rætt hefur verið um eftir að raddir heyrðust um að þær útgerðir standi ekki undir þeirri hækkun sem varð á veiðigjaldinu 1. september.

„Ég sendi mörgum áhrifamönnum póst þess efnis fyrir kosningar og lýsti þeirri skoðun minni að þegar aðlögunartíminn með helmingsafslætti af veiðigjöldunum færi af á miðjum vetri, sem þýðir að þau fjórfaldast á milli ára, myndi umræðan hætta að snúast um hvað ætti að hækka gjöldin mikið heldur færi hún aftur í hverjum ætti að bjarga og á hvaða svæðum. Ég reiknaði bara ekki með að sú umræða byrjaði 2. janúar,“ segir Pétur. „Þá átta menn sig á því að þau gjöld sem eru núna eru þess lags að þau slátra öllum fyrirtækjum hratt og hægt. Þau eru svo út úr kortinu að einhvers staðar höfum við misst fótanna.“

Pétur dregur fram mynd af bátnum sem verið er að smíða fyrir Vísi og aðra af nýjum vinnslusal félagsins. „Þetta er fyrsta skipið sem við smíðum síðan afi byggði bátinn 1943. Þetta er nýr línubátur sem stenst nútímakröfur um öryggi og að­ búnað. Fyrir veiðigjöldin sem eru í dag væri hægt að borga þennan bát niður á þremur árum,“ segir Pétur, en báturinn kostar tæpan milljarð. „Fyrir veiðigjöldin gætum við endurnýjað einn nýjan fiskvinnslusal á tveggja ára fresti,“ segir Pétur, en Vísir er í nánu samstarfi við Marel þegar kemur að tæknivæðingu fiskvinnslu á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .