Verulegur viðsnúningur var í afkomu af vátryggingarekstri VÍS á öðrum ársfjórðungi 2017. Gera drög að árshlutareikningi fyrir fyrri helming ársins ráð fyrir að að hagnaður af samstæðu VÍS, fyrir utan hlutdeild í afkomu Kviku banka, verði 1,1 milljarður króna, að því er fram kemur í afkomuviðvörun sem VÍS gaf frá sér rétt í þessu.

Í tilkynningunni frá VÍS segir að ástæða sé til þess að upplýsa markaðinn, þar sem um sé að ræða afgerandi frávik, en fjórðungurinn hafi verið óvenju tjónaléttur. ,,Drögin sýna að samsett hlutfall á öðrum ársfjórðungi er 84,4%, samanborið við 107,2% á þeim fyrsta," segir meðal annars í afkomuviðvöruninni.

Aðalmælikvarði á afkomu vátryggingafélaga er samsett hlutfall og er yfirleitt þá átt við nettó hlutfall eftir að tekið hefur verið tillit til endurtrygginga. Lagt er þá saman eigið tjónshlutfall og kostnaðarhlutfall. Eigið tjónshlutfall er eigin tjón deilt með eigin iðgjöldum, en þá er bæði búið að draga frá tjónakostnað sem fellur á endurtryggjendur frá tjónum og kostnað vegna endurtrygginga frá iðgjöldum. Kostnaðarhlutfall er kostnaður sem fellur á vátryggingastarfsemina deilt með eigin iðgjöldum.

Þar segir einnig eins og áður segir að fjórðungurinn hafi verið óvenju tjónaléttur og eigi það einnig við um ökutækjatryggingar þó afkoma af þeim sé óviðunandi. Þrátt fyrir þessi frávik er þó lögð áhersla á að ávallt meig búast við sveiflum í vátryggingarekstri og það sé því varhugavert að draga of víðtækar ályktanir af afkomu eins ársfjórðungs.

,,Samsett hlutfall á fyrri árshelmingi 2017 er samkvæmt framangreindu 95,4%.  Horfur eru á að samsett hlutfall ársins 2017 verði á bilinu 97%- 99%."

Drögin gera ráð fyrir að hagnaður samstæðu VÍS fyrir skatta á fyrri árshelmingi 2017 verði um 1,1 milljarður króna fyrir utan hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélagsins Kviku banka á öðrum ársfjórðungi 2017, þar sem upplýsingar um afkomu bankans á tímabilinu liggja ekki fyrir.

Afkoma Kviku banka getur haft áhrif á endanlega rekstrarniðurstöðu tímabilsins. Þá er einnig gerður sá fyrirvari að ekki liggur fyrir endanlegur samstæðuárshlutareikningur félagsins fyrir fyrri árshelming 2017 og að enn fremur eigi eftir að kanna samstæðuárshlutareikninginn.