Halli á vöruskiptum við útlönd fyrstu ellefu mánuði ársins nam 19,9 milljörðum króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar, sem birtar voru í dag. Afgangur var á vöruskiptum við útlönd í nóvember upp á 800 milljónir króna, en það sem af er ári er hallinn töluverður. Er þetta í fyrsta skipti sem halli er á vöruskiptum við útlönd fyrstu ellefu mánuði ársins frá árinu 2008, þegar hallinn á tímabilinu nam 30,7 milljörðum króna.

Afgangur á vöruskiptum fyrstu ellefu mánuði ársins var mestur árið 2010, eða 106,3 milljarðar, en hann hefur farið minnkandi síðan. Í fyrra var afgangur af vöruskiptum fyrstu ellefu mánuðina 503 milljónir króna.

Allur gangur hefur verið á því undanfarin ár hvort afgangur eða halli er á vöruskiptum við útlönd í desember og því ekki hægt að spá fyrir um það hvort vöruskiptahallinn eigi eftir að aukast eða minnka fyrir árið í heild.

Í frétt Hagstofunnar er vakin athygli á því að áætlun um eldsneytiskaup íslenskra flutningsfara erlendis er nú meðtalin í bráðabirgðatölum.