Vésteinn GK, nýr 30 tonna línubátur Einhamars í Grindavík, var sjósettur í Hafnarfirði fyrir skemmstu og fór í sinn fyrsta róður í síðustu viku. Framundan var að fínpússa ýmsa hluti um borð áður en haldið yrði aftur til veiða. Guðmundur Theódór Ríkharðsson skipstjóri segir að brælur séu framundan því verði stefnt að því að gera bátinn kláran í þessari viku.

[email protected]

Vésteinn er sams konar bátur og Auður Vésteins SU og Gísli Súrsson GK sem Einhamar fékk afhenta í ágúst 2014. Þessir þrír bátar munu róa jafnt frá Stöðvarfirði og Grindavík. Bátarnir eru smíðaðir hjá Trefjum í Hafnarfirði.

„Fyrst kom til tals 2015 að hefja smíði á Vésteini en síðan ákvað útgerðin að halda að sér höndum um tíma vegna óvissu á ýmsum sviðum. Svo var ákveðið að setja kraft í þetta og nú er fleyið komið á flot. Þetta eru því talsverð tímamót og menn spenntir að fara á veiðar,“ segir Guðmundur.

Stærri kjölur og skrúfa

Um sama skrokk er að ræða og á Auði Vésteins og Gísla Súrssyni en þó eru ákveðnar útfærslur á Vésteini sem gera hann sérstakan. Kjölurinn er nokkru stærri sem og skrúfan og strax í upphafi var ákveðið að setja strax í hann veltibúnað sem ekki var gert fyrr en seinna í hinum tveimur bátunum.

„Báturinn lætur mjög vel í sjó. Hann er þyngri og með stærri kjöl en Auður og Gísli og það næst meiri gangur í hann með stærri skrúfu. Við vorum að keyra alveg á tíu hnútum,“ segir Guðmundur.

Haldið var í fyrsta sinn til veiða fyrir helgi en ákveðið var að halda sig nærri landi ef eitthvað kæmi upp á því verið var að frumkeyra bátinn við veiðar. Engu að síður fiskaðist vel og afraksturinn var um tíu tonn. Það er því óhætt að segja að framhaldið lofi góðu fyrir Guðmund Theódór og hans menn.

Guðmundur var áður skipstjóri á Auði Vésteins á móti Hauki Guðbergi Einarssyni sem verður nú einn skipstjóri á henni. Fjórir eru í áhöfn bátanna. Framundan er vertíð hér syðra og síðan fer Vésteinn væntanlega austur á Stöðvarfjörð.

17.000 krókar

Guðmundur segir aðstöðuna um borð mjög góða. Tveir klefar eru um borð og tveir í hverjum klefa. Fyrir austan er síðan fín aðstaða fyrir áhöfnina í gamla pósthúsinu á Stöðvarfirði sem Einhamar keypti og gerði upp.

„Það er vel hlúð að mannskapnum hjá Einhamri og það væsir ekki um hann. Ég hef verið hjá fyrirtækinu í tólf ár og langflestir aðrir með langan starfsferil hjá því. Það segir allt sem segja þarf.“

Beitningarvél frá Mustad er um borð og segir Guðmundur krókarnir verði 17.000 talsins. Stefnt sé að því að hafa sama fjölda króka á öllum bátunum þremur. Áður höfðu krókarnir verið 19-20 þúsund á Auði og Gísla. Með færri krókum gefst kostur á því að skipuleggja róðrana betur. Oft sé sótt 40-50 mílur út á haf og þá megi ekkert út af bera svo hægt sé að landa seinni partinn.

Meðaltúrar á Auði Vésteins voru á síðasta ári nálægt um 7 tonn. Allur þorskur og ýsa sem veiðist fyrir austan er fluttur landleiðina í vinnsluna hjá Einhamri þar sem framleiddur er ferskfiskur fyrir erlenda markaði..